Gönguhátíð í Súðavík gengur vel

Horft yfir Álftafjörð til Súðavíkur. Mynd: Gönguhátíð.

Gönguhátíðin í Súðavík er haldin í ótrúlegri veðurblíðu og þriðja daginn í röð er hitinn að ná í 20 stigin segir Einar Skúlason forsvarsmaður göngunnar. Dagskráin hefur gengið vel, en þó varð áfall á fimmtudagskvöld þegar Bragi Thoroddsen sveitarstjóri í Súðavík datt við ána í þorpinu og slasaðist og þó að það hafi farið betur en á horfðist þá er hann úr leik á gönguhátíðinni. „Það er miður enda ætlaði hann í allar göngurnar og aðstoða við leiðsögn. Anna Lind skólastjóri Súðavíkurskóla mun hins vegar leiða flestar göngurnar og vaskur hópur aðstoðar hana.“

Fjöldi fólks mætti að brennunni við sjávarsíðuna í gærkvöldi og dagsgangan úr Önundarfirði fór vel fram þrátt fyrir mikinn hita. 

Í morgun fór ríflega 20 manna hópur af stað í göngu yfir Súðavíkurfjallið, síðdegis kl. 17 verður söguganga um Súðavík og í kvöld verður útidansleikur við Raggagarð.

Í fyrramálið verður dagsganga að Galtarvita um Bakkaskarð. Svo verður ganga í Valagil kl. 11 og Ögurganga kl. 12. Um kvöldið verður alþjóðleg matarveisla með réttum frá Portúgal, Tælandi, Búlgaríu, Noregi og Þýskalandi.

Á mánudagsmorgun verður svo hin árlega morgunganga á Kofra.

DEILA