Í sumar var Fiskeldisskóli unga fólksins kenndur í fyrsta skipti í Vesturbyggð, Tálknafirði. Þetta er verkefni sem unnið var í samstarfi vinnuskóla byggðarlaga, fiskeldis- og sjávarútvegsfyrirtækja, Hafnarsamlags Vesturbyggðar og Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Fyrirtækin sem unnu að verkefninu með Sjávarútvegsmiðstöðinni voru Arctic Fish ehf., Arnarlax ehf. ,Oddi hf., Vestriba ehf og Vesturbyggð.
Skólinn var kenndur í eina viku frá 12. júlí til 17. Júlí s.l. Samtals sóttu 16 nemendur skólann og eru þau á aldrinum 13-16 ára. Kennslufyrirkomulagið var þannig að nemendur fengu bóklega fræðslu í formi fyrirlestra, leikja og tilraunaverkefna, heimsóttu fyrirtæki í fiskeldi og fyrirtæki í sjávarútvegi þar sem þau fengu fræðslu um starfsemi þeirra. Einnig voru kynntir fyrir þeim náms- og atvinnumöguleikar í greininni. Síðasta kennsludag var svo nemendum boðið upp á pizzaveislu og nemendur útskrifaðir.
Kennarar voru sjávarútvegsfræðingarnir Magnús Víðisson og Lilja Gísladóttir. Gestafyrirlesari var Freystinn Nonni Mánason sjávarútvegsfræðingur og meistaranemi í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Gekk skólinn vel að mati kennara og annarra sem að skólanum komu.
Skólinn var einnig kenndur í sumar á Djúpavogi. Fyrirmyndin að Fiskeldisskólanum er Sjávarútvegsskóli unga fólksins sem hefur verið kenndur með sama fyrirkomulagi í 9 ár á Austurlandi, Norðurlandi og í Reykjavík.
Fiskeldisskóli unga fólksins er hluti af, „Bridges Erasmus +“, en það er samstarfsverkefni Íslands, Noregs, Svíðþjóðar og Finnlands um sameiginlegt nám í fiskeldi.
Myndir: Guðrún Arndís Jónsdóttir.