Auðnutittlingur

Auðnutittlingur er lítil, rákótt, grábrún finka með stutt stél. Rauður blettur á enni og svartur á kverk eru einkennandi. Hann hefur dökkar rákir á síðum, dauf vængbelti og grunnsýlt stél. Síðla vetrar og á vorin verður karlfuglinn bleikur eða rauðleitur á bringu og gumpi. Ungfuglar eru í fyrstu brúnflikróttir, án rauða blettsins á enni, en fá fullan búning í ágúst.

Auðnutittlingur flýgur í léttum bylgjum. Hann er kvikur og fimur þegar hann leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri. Er oftast í litlum hópum utan varptíma en þeir geta þó orðið allstórir.

Kjörlendi er birkiskógar og kjarr, auk þess ræktað skóglendi og garðar. Auðnutittlingur gerir sér hreiður í trjám og runnum. Það er lítil, vönduð karfa úr sinu og öðrum gróðri, fóðruð með hárum og fiðri. Verpur venjulega oftar en einu sinni á sumri.

Auðnutittlingur er staðfugl. Stofninn sveiflast nokkuð eftir árferði og því hvernig birkifræ þroskast. Hefur breiðst út í kjölfar aukinnar skógræktar. Grænlenskir auðnutittlingar fara hér um vor og haust og hafa ef til vill vetursetu. Heimkynnin eru á breiðu belti um allt norðurhvelið.

Af fuglavefur.is

DEILA