Íbúum á Vestfjörðum hefur fjölgað um 0,9% frá 1. desember 2020 til 1. júní 2021. Nú eru 7.162 með lögheimili á Vestfjörðum og hefur þeim fjölgað um 63 frá 1. desember. Þetta er mesta hlutfallslega fjölgunin á landinu. Landsmönnum fjölgaði um 0,6% á sama tíma eða um 2.070. Í öðrum landshlutum varð fjölgunin frá 0,1% til 0,6%.
Innan Vestfjarða varð fjölgunin mest í Vesturbyggð. Þar fjölgaði íbúum um 3,5% á þessu tímabili eða um 37 manns. Alls bjuggu 1.102 í Vesturbyggð 1. júní 2021. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 28 íbúa eða um 0,7%.
Fækkun varð í þremur sveitarfélögum á Vestfjörðum. Mest var hún á Tálknafirði en það fækkaði um 8 manns eða 3%. Þá varð fækkun í Reykhólahreppi og í Kaldrananeshreppi.
Tölur: Þjóðskrá Íslands.