Laugardaginn 3. júlí munu Tómas R. Einarsson og Kristín Svava Tómasdóttir standa fyrir kontrabassaleik og ljóðalestri í kirkju Samúels Jónssonar að Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði.
Viðburðurinn hefst kl. 16:00.
Tómas R. Einarsson er kontrabassaleikari og tónskáld. Hann hefur gefið út fjölda platna með tónlist sinni og í haust er væntanleg ný plata, Ávarp undan sænginni, sem hann gerði í samstarfi við Ragnhildi Gísladóttur.
Kristín Svava Tómasdóttir er ljóðskáld og sagnfræðingur. Hún hefur gefið út fjórar ljóðabækur, síðast Hetjusögur sem hlaut Fjöruverðlaunin 2020 en
bókin er byggð á æviþáttum og endurminningum 100 íslenskra ljósmæðra frá síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar.