Það er líf í landinu

Svo að landsbyggðin vaxi og dafni er mikilvægt að til staðar sé öflug byggðastefna ásamt góðum fjarskiptum og góðu vegakerfi. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið sem finna má í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum. Hægt er að fylgjast með framgangi þessara áætlana á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt verður að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri í yfir 500 verkefnum og stöðu 60 árangursmælikvarða.

Á nýja vefnum verður hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar á Vestfjörðum eða Austfjörðum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Það verður því hægt að fylgjast með fleiru á alnetinu en eldgosinu, sem ég veit að margir landmenn sitja spenntir yfir þessa dagana.

Talandi um bættar samgöngur

Þegar farið er inn á vegvísinn sjáum við fljótlega að hrein bylting hefur orðið og er framundan í samgöngumálum á Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng eru orðin að veruleika og klára á uppbyggingu á Dynjandisheiði árið 2023. Ný vegur um Gufudalssveit verður orðin að veruleika árið 2024. Með þessum samgöngubótum er verið að færa svæði inn í nútímann sem setið hafa á hakanum alltof lengi. Fleiri vegaframkvæmdir eru í farvatninu og þá verður einnig farið í uppbyggingu og lagfæringu á höfnum svo sem á Tálknafirði, Hólmavík og Brjánslæk.

Þeir sem hafa lagt leið sína um Kjalarnes síðustu mánuði sjá að þar er komin vel á veg tvöföldun Vesturlandsvegar upp í Borgarnes, framkvæmd sem mun stórbreyta tækifærum fyrir fólk á þessum svæði og bæta samkeppnisstöðu landsvæða fyrir vestan og norðan verulega. Sagan hefur kennt okkur að þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð þá leiddi það til fjölbreyttari atvinnutækifæra á Vesturlandi í heild.

Þá má einnig nefna að fyrir norðan er stefnt að uppbyggingu á Blönduósflugvelli. Auk þess eru áætlaðir rúmir tveir milljarðar í uppbyggingu á Þverárfjallsvegi um Refasveit og Skagastrandavegi sem á að vera lokið árið 2024.

Fjarskipti

Eitt af aðal áherslumálum Framsóknarflokksins hefur verið gott fjarskiptanet um land allt, enda hefur flokkurinn staðið fyrir öflugri byggðastefnu allt frá upphafi. Við vitum að  samkeppnishæfni samfélaga snýr að tryggu fjarskiptasambandi. Ljósleiðaratæknin er  grunnþáttur fyrir öflugri atvinnu og búsetu um allt land. Inn á Vegvísi má finna staðreyndir um mikið og öflugt starf sem unnið hefur verið síðustu ár við að koma dreifðari byggðum í gott og öflugt fjarskiptasamband. Því verkefni er ekki lokið og í fjarskiptaáætlun sem Sigurður Ingi samgönguráðherra lagði fram á Alþingi árið 2019 segir að stefnt skuli að því að aðgengi lögheimila og atvinnuhúsnæðis að ljósleiðara verði 99,9% og gert er ráð fyrir að verkefnið Ísland ljóstengt ljúki fyrir árslok 2021 enda var átakið aftur sett í forgang í núverandi stjórnarsamstarfi. Ég hvet alla þá sem eru að kíkja inn á vegavísi.is. Þetta er stórskemmtilegur og fræðandi vefur. Það er líf í landinu, áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

DEILA