Rann­veig Haralds­dóttir er bæjarlista­maður Vest­ur­byggðar 2021

Rannveig Haraldsdóttir. Með henni á myndinni er Gauja Hlín Helgudóttir menningar- og ferðamálafulltrúi í Vesturbyggð

Í tilkynningu frá Vesturbyggð kemur fram að Rann­veig Haralds­dóttir hefur hlotið nafn­bótina Bæjarlista­maður Vest­ur­byggðar 2021.


Verðlaunin voru afhent í fyrsta skipti þann 17. júní en hægt var að senda inn tilnefningar til og með 24. maí s.l. Almenningi stóð til boða að tilnefna listamann úr öllum listgreinum, hvort heldur sem er myndlist, ritlist, leiklist, dans, hönnun o.s.frv.

Það bárust margar tilnefningar en það var samróma álit dómnefndar að Rannveig fengi verðlaunin að þessu sinni. Rannveig er virk í listsköpun sinni bæði sem listmálari sem og í jurtaframleiðslu, en hún hefur með efnafræðiþekkingu sinni þróað sínar eigin afurðir. Hún leitar víða fanga og hefur farið nýstárlegar leiðir með því að nota hráefni og viðfangsefni úr nærumhverfinu. Rannveig er uppfinningasöm og fer sínar eigin leiðir með frumkvæði og brosi.

Dómnefnd vonast til að þessi viðurkenning verði Rannveigu hvatning til að koma verkum sínum á framfæri sem víðast og verði innblástur fyrir aðra listamenn á svæðinu.

Vesturbyggð óskar Rannveigu innilega til hamingju með titilinn og þakkar dómnefndinni fyrir störf sín

DEILA