Ísafjarðarbær: framundan fundir með Umhverfisráðherra um þjóðgarð

Frá fundi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri og Kristján Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir öðru sinni málefni þjóðgarðs á Vestfjörðum. Fyrir lá lokaskýrsla starfshóps , drög að viljayfirlýsingu sem varðar fjármagn og rekstur þjóðgarðsins og minnisblað frá Orkubúi Vestfjarða til bæjarstjóranna Birgis Gunnarssonar og Rebekku Hilmarsdóttur sem voru fulltrúar bæjarstjórnanna í starfshópnum. Bæjarráðið leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að taka málið til afgreiðslu. Ekkert kemur fram um hver afstaða bæjarráðsins er. Bæjarstjórnin hefur þegar afgreitt viljayfirlýsinguna en á eftir að afgreiða friðunarskilmála þjóðgarðsins.

Fram kemur í fundargerð bæjarráðsins að framundan eru fundir með umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun til að fara yfir athugasemdir um friðlýsingarskilmála og styrkingu raforkukerfisins á svæðinu.

Ekki kemur fram hvenær málið verður tekið fyrir í bæjarstjórn en næsti fundur er á fimmtudaginn. Síðan tekur við sumarleyfi bæjarstjórnar og ekki verður bæjarstjórnarfundur fyrr en 2. september. Í leyfi bæjarstjórnar fer bæjarráð með fullnaðarákvörðun mála.

DEILA