Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi til Háafells fyrir 6.800 tonna laxeldi í sjó í Ísafjarðardjúpinu. Háafell ehf. hefur verið með starfsleyfi fyrir 7.000 tonn af regnboga og þorski í Ísafjarðardjúpi sem fellur úr gildi með útgáfu þessa leyfis.
Í tilkynningu á vefsíðu Umhverfisstofnunar segir að stofnunin meti það svo „að mengun verði aðallega í formi lífræns úrgangs (bæði í föstu og uppleystu formi) sem frá eldinu muni berast í viðtakann. Að mati stofnunarinnar geta áhrif mengunarinnar verið neikvæð á eldissvæðum en afturkræf ef eldi verður hætt. Eldið er kynslóðaskipt og svæði hvíld á milli kynslóða þannig að botninn jafni sig á milli. Umhverfisstofnun bendir á að í starfsleyfi stofnunarinnar fyrir starfseminni mun vera ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða, bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði og það þarfnist frekari hvíldar.“
Matvælastofnun frestaði að gefa út rekstrarleyfi til Háafells vegna athugasemda frá Arnarlax við málsmeðferð Skipulagsstofnunar á matsskýrslum um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Arnarlax gerir athugasemd við það að Skipulagsstofnun hafi afgreitt umsókn Háafells á undan umsókn Arnarlax með þeim afleiðingum að fyrirsjáanlega fái Arnarlax ekki heimild til eldis í Djúpinu þar sem umsóknirnar eru um eldi á meira magni en áhættumat Hafrannsóknarstofnunar heimilar í Djúpinu. Það mál er enn til meðferðar hjá Matvælastofnun.
Til þess að unnt sé að hefja eldi þarf bæði starfsleyfi og rekstrarleyfi og hefur Háafell nú fengið starfsleyfið og fyrir liggur að Matvælastofnun hyggst veita fyrirtækinu rekstrarleyfi og verður svo nema að athugunin breyti þeim áformum.
Ákvörðun Umhverfisstofnunar er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar. Starfsleyfið öðlast gildi við afhendingu til rekstraraðila og gildir starfsleyfið til 10. júní 2037.
Tvær athugasemdir voru gerðar við veitingu starfsleyfisins. Þær eru frá Arnarlax hf og sameigilega frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúrurverndarfélaginu laxinn lifir og Árna Árdal Ólafssyni.