Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 2,1% á landinu öllu.
Hækkun á Vestfjörðum er 16,3%
Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 8% en um 5,9% á landsbyggðinni. Mesta hækkunin er á Vestfjörðum eða um 16,3%, hækkunin er 8,6% á Norðurlandi vestra, 6,7% á Suðurlandi, 6,6% á Austurlandi, 5,1% á Suðurnesjum, 4,8% á Vesturlandi og 4,2% á Norðurlandi eystra.
Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest Í Bolungarvík eða um 22,8%, um 18,9% í Ísafjarðarbæ og um 15,3% í Vesturbyggð. Mesta lækkunin er í Skorradalshreppi þar sem fasteignamatið lækkar um 2,6%. Hér er um að ræða hækkun allra fasteigna íbúðahúsnæðis, atvinnuhúsnæðis og annars húsnæðis.
„Við erum að sjá nokkuð meiri hækkun á fasteignamati heilt yfir landið en fyrir ári síðan sem er í takt við þróun fasteignaverðs á tímabilinu febrúar 2020 til febrúar 2021. Fyrir ári síðan ríkti nokkur spenna um hvaða áhrif Covid-19 myndi hafa á matið en við sjáum að aðrir þættir eins og lægri vextir hafa haft talsverð áhrif á fasteignamarkaðinn og þar með fasteignamatið,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár um fasteignamatið sem Þjóðskrá gefur út. Almennt eru litlar breytingar á aðferðarfræði fasteignamats á milli ára að þessu sinni.
Íbúðamat hækkar um 30,7% í Bolungarvík
Fasteignamat íbúða hækkar mest í Bolungarvíkurkaupstað en þar hækkar íbúðarmatið um 30,7%, í Kjósarhreppi um 29,4% og 23,6% í Ísafjarðarbæ. Eina sveitarfélagið þar sem íbúðarmatið lækkar á milli ára er í Grundarfjarðarbæ en þar lækkar matið um 0,5%. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 6,2% á landinu öllu; um 5,4% á höfuðborgarsvæðinu en um 8,0% á landsbyggðinni.
2 m.kr. hækkun á hverri fasteign á Vestfjörðum
Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 7,9% á milli ára og verður alls 7.221 milljarðar króna. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 8,9% en 5,2% á landsbyggðinni.
Hækkunin á Vestfjörðum milli ára losar 13,5 milljarða króna. Hún deilist á 6.465 fasteignir og nemur því hækkunin 2 m.kr. að jafnaði á fasteign í fjórðungnum.
Fasteignamat 2022 heild Landshluti | Fjöldi fasteigna | Fasteignamat | Fyrirhugað fasteignamat | Fasteignamat breyting |
1 Höfuðborgarsvæðið | 108.921 | 6.763.260.970 | 7.303.924.974 | 8,0% |
2 Suðurnes | 13.477 | 533.419.425 | 560.503.922 | 5,1% |
3 Vesturland | 15.298 | 394.466.335 | 413.560.857 | 4,8% |
4 Vestfirðir | 6.465 | 83.105.880 | 96.650.352 | 16,3% |
5 Norðurland-Vestra | 6.067 | 130.805.571 | 142.005.563 | 8,6% |
6 Norðurland-Eystra | 19.840 | 629.155.898 | 655.871.182 | 4,2% |
7 Austurland | 7.322 | 271.885.636 | 289.760.423 | 6,6% |
8 Suðurland | 31.283 | 822.926.683 | 877.758.702 | 6,7% |
208.673 | 9.629.026.398 | 10.340.035.975 | 7,4% |