Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að forsvarsmenn Arnarlax og Arctic Fish hafi kynnt bæjarstjórn Vesturbyggðar hugmyndir um mögulega uppbyggingu sláturhúss á Patreksfirði. Hún segir að kynning fyrirtækjanna hafi farið fram 17. maí sl. með bæjarstjórn Vesturbyggðar, „en fundurinn var ekki hluti af formlegum fundum bæjarstjórnar.“
Leynd yfir fundinum
Ekki er gefnar nánari upplýsingar um innihald hugmyndanna frekar en um sams konar fund með bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar svaraði ósk Bæjarins besta um afrit af fundargögnum með því að segja fylgigögnin séu undanþegin upplýsingaskyldu samkvæmt 9. grein upplýsingalaga (viðskiptahagsmunir) og verða því ekki afhent.
Athygli vekur að kynningarfundurinn 17. maí með bæjarstjórn Vesturbyggðar er ekki formlegur og ekki bókaður. Ekkert var því getið um hann í fundarboði fyrir bæjarstjórnarfund sem haldinn var á miðvikudaginn. Bæjarins besta spurðist fyrir um það hvort fiskeldisfyrirtækin hefðu hitt fulltrúa Vesturbyggðar og fékk það staðfest skömmu fyrir bæjarstjórnarfundinn að svo hefði verið. Við upphaf fundar var tekið inn á dagskrá með afbrigðum kynning á gögnum frá forstjórum Arnarlax og Arctic Fish frá 17. maí um mögulega uppbyggingu sláturhúss á Patreksfirði.
Spurning er hvers vegna dregið var í 9 daga að bóka formlega um fundinn og efni hans og hvers vegna málið var ekki á útsendri dagskrá bæjarstjórnar. Þetta er mál sem varða íbúana miklu og reyndar Vestfirðinga alla og á því tvímælalaust erindi við almenning. Það er ekki góður svipur á því að hafa þetta undir borðum. Benda má á að bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók málið formlega fyrir á fundi þannig að öllum má vera ljóst að málið er til umræðu.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar fól bæjarstjóra ásamt hafnarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að taka saman gögn og upplýsingar vegna málsins og leggja fyrir á næsta fundi bæjarráðs auk þess að bóka að „bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar því að fyrirtækin sjái tækifæri í áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu.“
Forseti bæjarstjórnar, Iða Marsibil Jónsdóttir, vék af fundi meðan málið var tekið fyrir.
-k