Þeir voru nú ekki beinlínis að flíka mjúku hliðinni karlmennirnir í faðmi fjalla blárra á síðustu öld. Þegar við bættist hrjúfur og mikill raddstyrkur vandaðist málið enn frekar. En eftir örfá orð komu mjúku tónarnir í ljós. Í orðsins fyllstu merkingu. Þannig var Pétur Geir í minningu neðribæjarpúkans. Hrjúfur en ljúfur sæúlfur. Einn af þessum mönnum sem maður kunni fljótlega skil á eftir að reglubundnar bryggjuferðir æskunnar hófust. Þá trúlega var hann orðinn útgerðarmaður á Pólstjörnunni. Hann fór aldrei langt frá hafinu og því sem það gaf af sér.
Haustið 1980 var hóað saman sex mönnum á Engjaveginn til Kitta og Hansínu. Vart var hægt að hugsa sér ólíkari hóp manna. Þeir höfðu samt allir áhuga á fótbolta og tóku það að sér að reyna að láta villta drauma rætast um sæti til handa ÍBÍ meðal þeirra bestu á landinu. Efniviðurinn í íþróttamönnunum hafði verið til staðar en einhvern veginn hafði þetta aldrei smollið saman tuttugu árin þar á undan.
Þetta kvöld hófst vinátta okkar sem aldrei bar skugga á síðan. Ásamt félögum okkar gengum við til verka og náðum með samstilltu átaki íbúa að láta drauminn rætast. Hvað sem titlar okkar stjórnarmanna gáfu til kynna var hann potturinn og pannan í þessu starfi. Hugmyndaauðgi hans í fjáröflunum var óþrjótandi og á stundum virkuðum við hinir eflaust eins og bölvaðar bremsur á hann á köflum. Við unnum einstaklega vel saman þessi ár. Þó hann tæki starf sitt mjög alvarlega setti glaðværð hans og glettni einatt skemmtilegan svip á fjölmörg ferðalög þessara ára. Þá spratt líka stundum fram tónlistarmaðurinn í honum. Eftirminnileg er minningin um kvöldverðarhófið í þýska bænum að afloknum sigurleik okkar manna. Þar rak hann augun í nikku eina mikla. Hún var á augabragði komin í fang hans og ljúfir tónar bárust um salinn þýskum gestgjöfum okkar til mikillar undrunar og gleði.
Haustið 1981 komust drengirnir okkar í hóp þeirra bestu eins og stefnt var að. Það voru dýrðartímar.
Grettistakið sem Pétur Geir lyfti á þessum árum gleymdist knattspyrnuforystunni ekki og árið 2007 var hann, fyllilega verðskuldað, sæmdur gullmerki KSÍ. Mikið vorum við montnir það kvöld.
Svo tóku önnur verkefni við. Pétur Geir gerðist rækjuverkandi í Eyjafirði enda þekktu fáir menn kampalampann betur en hann. Aftur lágu leiðir okkar saman í forystu rækjuverkenda. Þar var hann líkt og fyrrum góður og traustur liðsmaður.
Þegar Púkamótin hófust á Ísafirði snemma á þessari öld og sömu drengir, þá orðnir gamlar knattspyrnukempur, reyndu að sína samborgurum sínum að þeir hefðu engu gleymt var hann mættur á sinn stað. Örlítið stilltari en sami brennandi áhuginn.
Réttum fjörutíu árum eftir að fyrstu leikirnir voru leiknir, sem mörkuðu upphaf ævintýrisins, hefur Pétur Geir kvatt þetta jarðlíf. Í fjölmörgum samtölum okkar síðla kvölds forðum daga kom í ljós að hann var mjög trúaður maður, sem er raunar mjög algengt meðal sjómanna. Um leið og ég votta öllu hans góða fólki samúð mína enda ég á orðum hagyrðingsins Péturs Geirs.
Minn frelsari ég fel þér öll mín ráð
og fagna þér að dögum mínum töldum.
(PGH)
Halldór Jónsson.