Mælir setlög í sjó

Borinn er notaður til að kanna gerð setlaga í botni hafna og fjarða þar sem stendur til að framkvæma.

Sérsmíðaður prammi, sem gengur undir nafninu Borró-pramminn og er með höggbor, er notaður til að mæla lagskiptingu jarðlaga og dýpi á klöpp í höfnum og fjörðum þar sem framkvæmdir standa fyrir dyrum.

Pramminn var teiknaður af Ingvari Engilbertssyni og Birgi Tómasi Arnar hjá Siglingastofnun í kringum aldamótin síðustu. Pramminn er samsettur úr tveimur gámaeiningum, er 5×6 metrar að stærð og í honum miðjum er 1×1 metra gat sem borinn fer í gegnum.

Mælingar fara þannig fram að borinn sem er 35 mm að breidd borar niður í sjávarbotn og safnar upplýsingum sem hönnuðir nota. Mælingu taka mislangan tíma, allt frá tíu mínútum upp í tvo klukkutíma eftir því hversu djúpt er niður á botn.

Stjórnandi prammans og borsins er Friðrik Þór Halldórsson rannsóknarmaður á hafnadeild Vegagerðarinnar og hefur hann nýlega klára verkefni í Reykhólahöfn þar sem  lengja á stálþil, en í haust fór hann til mælinga í Þorskafirði sem nú  er búið að bjóða út og verktakinn hefur hafist handa. Næst heldur hann í Gufufjörð og Djúpafjörð vegna þverunar fjarðanna fyrir hinn nýja Vestfjarðaveg (60) um Teigsskóg.

Friðrik hefur ekki verið í þessu starfi lengi, byrjaði í september í fyrra en var áður á rekstrardeild Vegagerðarinnar. Hann er þó ekki óvanur störfum á sjó. „Ég starfaði á dýpkunarpramma í Noregi þar sem verið var að bora og sprengja fyrir höfnum og siglingarleiðum. Þetta eru því kunnuglegar aðstæður þó margt hafi verið alveg nýtt fyrir mér,“ segir Friðrik sem er þó aldrei einn á ferð heldur hefur alltaf með sér mann til aðstoðar. Verkefnin eru næg og því þarf að nýta veturinn líka þó veðrið geti verið rysjótt. „Þetta hefur alveg sloppið til en ég er mjög spenntur að prófa að vinna við þetta í sumar í sól og góðu veðri,“ 

DEILA