Dýpkun við Sundabakka á Ísafirði

Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna dýpkunar við Sundabakka á Ísafirði.

Fram kemur í matsskýrslu að dýpkunarsvæðið sé um 112.000 m2 að stærð og áætlað magn á uppdældu efni verði allt að 410.000 m³. Dýpkunarskip fjarlægir efnið afsjávarbotninum og dælir því á land eða á losunarstað. Sýnataka á svæðinu leiddi í ljós að mestur hluti efnisins er fínn og meðalgrófur sandur og er því of fínt til að gagnast í aðra mannvirkjagerð en landfyllingu. Ekki er þörf á ítarlegri rannsóknum á efninu skv. viðmiðum Umhverfisstofnunar um meðferð dýpkunarefnis. Dýpkunarefnið verður losað innan við fyrirstöðugarðinn og það nýtt sem fylling undir viðlegukantinn og er áætlað að um 90.000 m3 af efni fari þegar á heildina er litið í landfyllinguna á um 26.000 m²svæði.

Fram kemur að efni sem ekki nýtist í landfyllingu við Sundabakka verði nýtt í öðrum framkvæmdum á svæðinu, m.a. er gert er ráð fyrir að allt að 250.000 m³ af efninu verði nýttir til landfyllingar innan Langeyrar í Súðavík í Álftafirði en þar er fyrirhugað að reisa kalkþörungaverksmiðju. Þá er ráðgert að nota um 60.000 m³ í að hækka land undir nýbyggingar sem fyrirhugaðar eru skv. skipulagi á Suðurtanganum á Ísafirði og um 10.000 m³ er fyrirhugað að nota til landmótunar á milli íbúðar- og iðnaðarsvæðis á Tanganum.

Í samræmi við 11. gr. laga og 26. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu hafna Ísafjarðarbæjar og Vegagerðarinnar sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt.

Fyrir liggur að botndýralíf mun verða fyrir neikvæðum áhrifum bæði á fyrirhuguðu dýpkunarsvæði við Sundabakka og einnig á svæði á Djúpslóð í Ísafjarðardjúpi ef til þess kemur að losa þurfi efni í sjóinn þar. Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum er botndýralíf ekki fjölbreytt á þessum svæðum eða sjaldgæfar tegundir að finna og líklegt að sambærilegt botndýralíf nái að festa rætur að framkvæmdum loknum. Skipulagsstofnun telur að í ljósi upplýsinga í framlögðum gögnum sé ákveðin óvissa til staðar um áhrif gruggs á fyrirhugað fiskeldi í nágrenni efnislosunarstaðar á
Djúpslóð og tekur undir með framkvæmdaraðila að hafa þurfi samráð við Arctic Sea Farm um endanlega staðsetningu losunarstaðarins ef fiskeldi verður hafið á því tímabili sem gert er ráð fyrir efnislosun.

Fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa í för með sér staðbundið nokkuð neikvæð áhrif á fugla á framkvæmdatíma vegna truflunar og ónæðis og einnig að framkvæmdum loknum vegna eyðileggingar búsvæða og varpsvæða, aðallega kríu, auk þess sem við dýpkun og gerð landfyllingar verður gengið á fæðuöflunarsvæða fugla. Skipulagsstofnun telur að niðurrekstur stálþils komi til með að að hafa tímabundið neikvæð áhrif vegna hávaða og mikilvægt er að við þær framkvæmdir sé farið eftir þeim tímatakmörkunum sem gilda um háværar framkvæmdir.

DEILA