Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2020–2021 er nýlega komið út og er efni ritsins fjölbreytt að vanda.
Aðalsteinn Benediktsson skrifar um Spánverjavígin og gerir grein fyrir því hverjir Baskar voru, hvaðan þeir komu og upphafi þess að farið var að stunda hvalveiðar í atvinnuskyni en þar stóð Baskar öðrum framar um langt skeið.
Ásgeir Svanbergsson skrifar um lífshlaup Elínar Magnúsdóttur frá Hamri sem var fædd 1862.
Vigdís Einarsdóttir Maack, er viðfangsefni greinar eftir þær Guðrúnu Jónsdóttur og Ingunni Snædal. Vigdís var fædd 1860 í Neðri-Miðvík í Sléttuhreppi í Jökulfjörðum og þurfti á lífsleiðinni að þola ýmis áföll. Eiginmann sinn, séra Pétur A. Maack, missti hún í hörmulegu sjóslysi haustið 1892 og stóð eftir bláfátæk ekkja með fimm börn. Í greininni er sagt frá lífshlaupi Vigdísar og barna hennar.
Jón Páll Halldórsson skrifar stutta grein undir heitinu „Vel heppnuð læknisaðgerð“ þar sem sagt er frá aðgerð sem Þorvaldur Jónsson læknir framkvæmdi á Kristínu Ólafsdóttur í Fremri-Hnífsdal árið 1865.
Jón Kristján Þorvarðarson skrifar um slysin við Bjarnarnúp 1920 og styðst þar við frásögn afa síns, Jóns Kristjánssonar, sem var samferðarmaður Sumarliða Brandssonar pósts í hans hinstu ferð.
Kristján G. Jóhannsson skrifar um alþingismanninn og héraðshöfðingjann Gunnar Halldórsson í Skálavík sem var fæddur á Hvítanesi 1837 og lést í Skálavík 1894. Beitti hann sér fyrir ýmsum framfaramálum í sínu héraði og lét til sín taka í þjóðmálum jafnframt því að reka stórt bú í Skálavík og stunda útgerð.
Í greinninni „Tvær systur“ skrifar Leifur Reynisson um systurnar Maríu og Þorlaugu Mósesdætur, kenndar við bæinn Arnarnes í Dýrafirði. Heldur hann hér áfram frásögn sinni af börnum Móses Þorleifs Bjarnasonar og Kristínar Jónínu Bjarnadóttur en greinar eftir hann um bræðurnar Finnjón og Jón Mósessyni birtust í Ársritinu 2018 og Ársritinu 2019. Þau leiðu mistök urðu við vinnslu Ársritsins að þessu sinni, að seinni hluti greinar Leifs hefur fallið burt og endar grein hans í miðjum klíðum í ritinu. Af þeim sökum verður greinin birt í heild sinni í næsta árgangi Ársritsins og er höfundur, Leifur Reynisson, beðinn innilegrar afsökunar á þessum mistökum. Lesendur ritsins eru jafnframt beðnir velvirðingar.
„Ljósmóðirin sem aðeins tók á móti einu barni“ er nafn greinar sem Reynir Tómas Geirsson skrifar um Kristjönu Guðmundsdóttur sem var fædd árið 1891 á Höfða í Grunnavíkurhreppi og lést 1964 í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá Yfirsetukvennaskólanum í Reykjavík vorið 1912 en það átti ekki fyrir henni að liggja að starfa sem yfirsetukona. Skömmu eftir að hún sneri heim eftir nám varð hún þunguð af völdum stjúpföður síns og hlaut síðar dóm fyrir að deyða nýfætt barn sitt. Í skrifum sínum rekur Reynir Tómas örlagasögu Kristjönu og gerir ítarlega grein fyrir dómsmálinu gegn henni.
Sigurður Pétursson skrifar um knattspyrnuleik Harðar og Ksf. Ísafjarðar sem háður var á Ísafirði 22. júní 1922 og byggir greinin á leikskýrslu sem nýverið kom fram í dagsljósið og er sú elsta sem fundist hefur frá knattspyrnuleik Ísafjarðarliða.
Það er Sögufélag Ísfirðinga sem stendur að útgáfu Ársritsins en fyrsti árgangur þess kom út árið 1956. Í stjórn félagsins sitja Björgvin Bjarnason formaður, Ólafur Sigurðsson gjaldkeri, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir ritari og Sigurður Pétursson og Arnheiður Steinþórsdóttir meðstjórnendur.