Á laugardaginn síðdegis varð það óhapp að vélsleði féll 6 metra niður af sillu í hlíðum Kistufells í norðanverðum Súgandafirði utan við Þjófaskarð. Vélsleðinn valt við fallið og varð karlmaður undir honum og slasaðist all nokkuð en ekki lífshættulega. Kona sem einnig var á sleðanum slapp ómeidd.
Halldór Óli Hjálmarsson hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar sagði að björgunarmenn hefði farið frá Ísafirði, Hnífsdal og Súgandafirði að slysstað á sleðum og jeppa, alls hefðu verið um 20 manns í björguninni.
Sleðafólkið hafði farið niður Gyltuskarð sem er milli Miðfells og Búrfells. Hinn slasaði var hífður upp og fluttur þaðan á sjúkrahúsið á Ísafirði. Alls tók leiðangurinn um 3 tíma að sögn Halldórs Óla.