Strandabyggð: sveitarstjórinn með þingfararkaup

Þorgeir Pálsson fyrrverandi sveitarstjóri fékk greidd sömu laun og alþingismenn samkvæmt ráðningarsamningi hans við Strandabyggð dags í júlí 2018. Þá var þingfararkaup 1.101.194 kr á mánuði en er núna 1.210.368 kr. Önnur laun voru ekki greidd, hvorki yfirvinna né fyrir nefndastörf.

Honum var heimilt að taka að sér stundakennslu við Háskólann í Reykjavík svo lengi sem það truflaði ekki störf hans í þágu sveitarfélagsins. Önnur launuð störf myndi hann ekki taka að sér nema að fengnu skriflegu leyfi oddvita Strandabyggðar.

Umsamin hlunnindi voru þau að sveitarstjóri fékk greitt fyrir akstur á eigin bíl vegna starfsins. Fartölvu og farsíma lagði sveitarfélagið til auk þess að greiða fyrir síma, nettengingu og akstur í Hvalfjarðargöng.

Samið var um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest. Samningurinn gildir til 9. júní 2022 hafi honum ekki verið sagt upp eða aðilar náð samkomulagi um breytingu fyrir þann tíma. Verði ekki um endurráðningu að ræða fær sveitarstjóri þriggja mánaða biðlaun sem falla niður ef fráfarandi sveitarstjóri fer í nýtt starf.

Samkvæmt orðalagi samningsins er ekki alveg ljóst hvort biðlaunaákvæðið gildir ef samningi er sagt upp eins og raunin hefur orðið. Gildi það þarf sveitarfélagið að greiða 6 mánaða laun en annars bara þriggja mánaða uppsagnarfrestinn.

Þá er ákvæði um að ágreining milli aðila megi leggja fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og skuldbinda aðilar sig til þess að hlíta niðurstöðu hans. Það þýðir væntanlega að samkomulag er um að áfrýja ekki niðurstöðu Héraðsdóms.

Samninginn undirrita Þorgeir Pálsson og Ingibjörg Benediktsdóttir f.h. Strandabyggðar.

Uppfært kl 11:33. Samkvæmt svörum frá skrifstofu Strandabyggðar eru ekki greidd biðlaun þegar um uppsögn er að ræða.

DEILA