Þorgeir Pálsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Strandabyggð, sem vikið var úr starfi á þriðjudaginn, segir í yfirlýsingu til íbúa Strandabyggðar að hann sé ósáttur við starfslokin þar sem hann hafi ekkert gert annað en að skyldum sínum sem sveitarstjóri og hann segist íhuga alvarlega að taka málið lengra og skoða réttarstöðu sína.
Þorgeir segir að ákvörðun sveitarstjórnar hafi komið sér á óvart og að fulltrúi sveitarstjórnar hafi boðið honum upp á óásættanleg starfslok.
Hagsmunir sveitarstjórnarmanna og styrkveitingar
Í yfirlýsingunni segir Þorgeir:
„Vissulega hefur okkur greint á í vissum málum og þá fyrst og fremst málum sem snúa að hagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna, óheppilegum og óæskilegum tengingum þeirra við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns eða eigna sveitarfélagsins. Mér hafa þótt sumar þessara ákvarðana stangast á við sveitarstjórnarlög, samþykktir Strandabyggðar og siðareglur Strandabyggðar.“
Þá víkur Þorgeir að lagaákvæði um hlutverk sveitarstjóra í sveitarstjórnarlögum og minnir á að sveitarstjóri er yfirmaður starfsmanna sveitarfélagsins og skuli sjá um að stjórnsýsla þess samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna.
Þar er undirstrikað sérstaklega viðeigandi fyrirmælum yfirmanna og virðist þar með lögð áhersla á að sveitarstjórinn sé yfirmaðurinn sem gefi fyrirmæli sem aðrir verði að fara eftir. Í fámennu samfélagi eru stundum sveitarstjórnarmenn líka starfsmenn sveitarfélagsins og þar með undirmenn sveitarstjórans. Ekki er gott að ráða í það hvort sveitarstjórinn fyrrverandi er að vísa til þess þegar hann hnykkir á þessu atriði og nefnir að auki tengingar sveitarstjórnarmanna við styrkúthlutanir.
„Ég hef gagnrýnt sveitarstjórn þegar mér hefur þótt hún hafa farið á skjön við m.a. þessa grein.
Ég hef haft skoðanir á ákvörðunum og embættisfærslum sem varða fjármuni og eignir sveitarfélagsins. Það er mitt hlutverk og mín skylda, um það á kjörnum fulltrúum að vera kunnugt.“
Og ennfremur:
„Gagnrýni mín á styrkveitingum til stofnanna sem tengjast einstaka sveitarstjórnarfulltrúum kemur til bæði vegna hagsmunatengsla en líka og ekki síður vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Eðli máls samkvæmt eiga heildarhagsmunir sveitarfélagsins alltaf að koma framar sérhagsmunum. Að mínu viti hefur sveitarfélagið Strandabyggð ekki efni á að veita neina styrki árið 2021. Sveitarstjórn var á öðru máli.“
Hér er nokkuð langt gengið í því að bera sveitarstjórnarmenn sökum um óeðlilega fjárhagslega hagsmunagæslu fyrir sig og sína og óhjákvæmilegt er að fulltrúarnir og varafulltrúarnir í sveitarstjórninni skýri aðkomu sína að ákvörðunum sem kunna varða þá. Íbúarnir hljóta vilja fá skýr svör um þessi atriði sem varða meðferð almannafjár.
Ljóst er að samstarfsörðugleikarnir eiga sér nokkuð langan aðdraganda því Þorgeir Pálsson upplýsir í yfirlýsingu sinni að á gamlársdag 2019 hafi hann ritað sveitarstjórn bréf „þar sem ég bað um fund til að ræða bætt samskipti, aukna samvinnu, upplýsingaflæði og fleira. Enginn sveitarstjórnarfulltrúi hefur enn svarað þessum pósti, sem segir sitt.“ Rímar þessi lýsing við svör Jóns Gísla Jónssonar, oddvita í Bæjarins besta fyrr í vikunni.
Samkvæmt heimildum Bæjarins besta sauð upp úr á síðasta fundi sveitarstjórnar þann 13. apríl. Næstu tvo daga var fyrrverandi sveitarstjóri ekki í vinnu og sagðist vera í fríi. Réttri viku eftir fundinn ákveður sveitarstjórnin að grípa til uppsagnarinnar. Hvernig að því var staðið hefur ekki verið upplýst. Ekkert fundarboð hefur verið birt um fund hreppsnefndar og dagskrá fundarins og engin fundargerð hefur verið birt svo eins og málin standa nú hefur uppsögnin ekki verið ákveðin með lögformlegum hætti.
Yfirlýsing Þorgeirs Pálssonar var birt á vefsíðu Strandabyggðar að kvöldi miðvikudagsins 21. apríl en tekin út aftur að skammri stundu liðinni.
-k