Staðarkirkja í Aðalvík

Staðarkirkja í Aðalvík var byggð árið 1904 en þá var torfkirkja sem reist var á milli 1850-1860 orðin illa farin og hálfhrunin.

Kirkja hefur verið í Aðalvík frá því á miðöldum og í kaþólskri tíð var hún helguð Maríu guðsmóðir og Pétri postula.

Til er máldagi kirkjunnar frá 1282 sem Árni biskup setti og á 15. öld mun kirkjujörðin hafa verið í eigu Vatnsfjarðar-Kristínar.

Um miðbik 18. aldar var séra Snorri Björnsson prestur á Stað í 16 ár. Síðar var hann prestur á Húsafelli í Borgarfirði. Margar sögur eru til af séra Snorra og kunnáttu hans. Fyrst eftir að séra Snorri kom að Stað voru Aðalvíkurbændur frekar óþægir við hann. Þeir smíðuðu t.d. líkkistu utan um löngu og fluttu hana til prestins. Var honum sagt að þetta væri niðursetningur norðan af Hornströndum sem þyrfti að jarða í kirkjugarðinum. Prestur á að hafa gengið íhugull í kringum kistuna og kveðið eftirfarandi vísu:

      Hér er komið kistuhró,
      klambrað saman af ergi,
      líkaminn er úr söltum sjó,
      en sálina finn eg hvergi.

Bað hann síðan mennina vinsamlegast að hverfa á brott og reyna aldrei neitt slíkt framar.

Síðasti sóknarprestur Sléttuhreppinga var séra Finnbogi L. Kristjánsson. Hann lét af störfum árið 1945 og sjö árum seinna lagðist hreppurinn í eyði.

Af kirkjukort.net

DEILA