Landhelgisgæsla Íslands hefur undanfarin ár verið nokkrum háskólum í Bandaríkjunum sem og stofnunum á vegum háskólasamfélagsins innan handar við dreifingu á mælingaduflum, yfirborðs svifnökkvum og litlum ómönnuðum rannsóknarkafbátum á hafsvæðinu umhverfis Ísland.
Verkefnið kallast NISKINe (e. Near Inertial Shear and Kinetic Energy in the North Atlantic experiment) og felur m.a. í sér mælingar á áhrifum vinds á ölduhæð, öldustefnu og strauma og er áhersla lögð á þessar mælingar suður af Íslandi.
Landhelgisgæslan hefur einnig komið að því að endurheimta hluta búnaðarins til baka sem í mörgum tilfellum hefur farið víða um í Norður-Atlantshafinu áður en rafhlöður tæmast og sendistyrkur dalar. Ferðir varðskipanna og eftirlitsbáta Landhelgisgæslunnar hafa verið nýttar í þessum tilgangi ef tækifæri hefur gefist m.t.t. aðstæðna og verkefna.
Umræddir háskólar og vísindastofnanir eru í samstarfi við aðra skóla víðs vegar um heiminn sem og hinar ýmsu stofnanir varðandi úrvinnslu og nýtingu vísindagagnanna, þar á meðal Hafrannsóknarstofnun og Veðurstofu Íslands.
Nýverið höfðu tengiliðir verkefnisins innan Hafrannsóknarstofnunar og Veðurstofunnar samband við Landhelgisgæsluna fyrir hönd kollega sinna í Bandaríkjunum og spurðust fyrir um hvort mögulegt væri að dreifa 36 mælingaduflum í sérstakri röð djúpt suður af Vestmannaeyjum. Hittist þannig á að áætlað var að varðskipið Þór yrði við störf undan Suðurlandi í byrjun apríl.
Duflunum var því í snarhasti komið um borð í skipið og þeim dreift í síðustu viku. Að auki var tveimur ómönnuðum rannsóknarkafbátum stýrt inn á svæðið þannig að hægt væri að taka þá um borð. Að endingu urðu duflin í heild 46 sem dreift var á 36 staði. Aðgerðin gekk vel enda ákjósanlegt veður suður af landinu í síðastliðinni viku eftir langvarandi norðanáttir.