Kristján Þór Júlíusson, sjávar- og landbúnaðarráðherra hefur með bréfi dags 14. apríl 2021 formlega tilkynnt Ísafjarðarbæ að hann hafi hætt við málsmeðferð til undirbúnings því að banna laxeldi í sjókvíum í Jökulfjörðum. Á síðasta ári hóf ráðherrann undirbúning málsins. Benti hann á að reglugerð frá 2004 um friðunarsvæði þar sem laxeldi í sjó er óheimilt næði ekki til Jökulfjarða og þar sem bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefði 2016 lagst gegn laxeldi í Jökulfjörðum og lagt á það áherslu á að engin ákvörðun yrði tekin án samráðs við íbúa, landeigenda og annarra hagsmunaaðila væri ástæða til þes,s meðal annars með skírskotun til hagsmuna ferðaþjónustu, að undirbúa bann við laxeldi í Jökulfjörðum.
Ákvörðunin um að falla frá banni við laxeldinu er rökstudd með því að vinna að strandsvæðaskipulagi standi yfir og mikilvægt væri að ljúka við gerð þess áður en ákvarðanir um nýtingu svæðisins væru teknar. Í skipulaginu eru teknar ákvarðanir um nýtingarflokka svæðisins og stefnt er að því að auglýsa tillögu að strandsvæðskipulaginu í september 2021. Það er svonefnd svæðisráð sem vinna strandsvæðiskipulagið undir stjórn Skipulagsstofnunar. Hafssvæðið utan 115 metra frá stórstraumsfjörðu er á valdsviði ríkisins varðandi skipulagsgerð og leyfisveitingar en sveitarfélögn fara með þetta hlutverk innan 115 m.
Með ákvörðun ráðherra hefur hann einnig komið í veg fyrir að unnt verði að hefja undirbúning að laxeldi í Jökulfjörðum, þar sem samkvæmt gildandi lögum verður að framkvæma burðarþolsmat og áhættumat fyrir svæðið áður en unnt er að úthluta eldissvæðum. Það er ráðherra sem ákveður hvort og hvenær matið fer fram. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar óskaði sérstaklega eftir því í sinni umsögn um fyrirætlan ráðherra að umrætt mat færi fram svo unnt yrði að taka upplýsta ákvörðum um nýtingu hafsvæðisins í Jökulfjörðum. Við þeirri ósk hefur ráðherrann ekki orðið.
Nokkurra umsagna var aflað um það hvort banna ætti laxeldi í Jökulfjörðum. Hafrannsóknarstofnun taldi að banna ætti laxeldið. Fiskistofa taldi hins vegar ekki tilefni til þess. Matvælastofnun taldi ekki rétt að taka afstöðu til þess þar sem það væri ekki á verksviði stofnunarinnar að hafa skoðun á því. Ísafjarðarbæ vildi láta gera burðarþolsmat og áhættumat og taka svo afstöðu. Ekki bárust umsagnir frá Bolungavíkurkaupstað, Súðavíkurhrepp og Strandabyggð.