Greinargerð skilað til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna

Íslensk stjórnvöld hafa skilað endurskoðaðri greinargerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Greinargerðin felur í sér endurskoðaða kröfugerð Íslands um afmörkun ytri marka landgrunnsins á Reykjaneshrygg utan 200 sjómílna.

Greinargerðin nær til landgrunns á vestur-, suður- og suðausturhluta Reykjaneshryggjar suðvestur af landinu, en ekki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis í suðri, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði. Vísindarannsóknir og undirbúningur hófst í lok síðasta árs fyrir þá greinargerð og verður unnið að því verkefni næstu ár. 

Ísland afhenti árið 2009 greinargerð vegna vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar, ásamt fleiri svæðum, og skilaði landgrunnsnefndin tillögu sinni vegna þeirrar greinargerðar árið 2016. Nefndin féllst á ytri mörk vestur af Reykjaneshrygg innan 350 sjómílna, en taldi hins vegar að fyrirliggjandi gögn væru ekki nægilega afgerandi fyrir svæðið utan 350 sjómílna til að styðja með óyggjandi hætti kröfur Íslands um að Reykjaneshryggurinn teljist náttúrulegur hluti landgrunnssvæðisins. 

Þar sem um endurskoðaða greinargerð er að ræða verður hún tekin fyrir af landgrunnsnefndinni við fyrsta tækifæri. Tillagna nefndarinnar er hins vegar ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár. 

DEILA