Við erum í þessu saman. Við verðum öll að leggja okkur fram annars mun veiran geysa um allt þjóðfélagið. Þá verða margir veikir sem illa þola veiruna. Þess vegna verður að setja reglur sem takmarka mannleg samskipti. Því þannig verður dreifing veirunnar milli manna takmörkuð.
Fyrir páskana kom í ljós að einhverjir voru ekki með. Veiran hafði laumast inn í landið og skaut upp kollinum á höfuðborgarsvæðinu í skólum og á tónleikum. Stjórnvöldin okkar brugðust hart og ákveðið við. Svo gott sem fyrirvaralaust.
Skólunum var lokað. Líkamsræktarstöðvunum var lokað. Sundlaugunum var lokað. Skíðasvæðunum var lokað. Skíðavikan á Ísafirði var slegin af. Aldrei fór ég suður varð bara hugmynd. Um allt land var skellt í lás í nafni samstöðunnar. Við erum jú í þessu öll saman.
En samt ekki alveg. Engar reglur eru án undantekninga. Eldgos er alveg sérstakt. Það er ekki hægt að banna að skoða eldgos, er það nokkuð? Auðvitað ekki, þess vegna var brugðist skjótt við og stikuð leið fyrir fólk. Til hægðarauka var settur upp kaðall fyrir göngumenn svo þeir gætu handstyrkt sig upp og niður- og örugglega allir strokið kaðalinn ekki einu sinni heldur tvisvar og það með báðum höndum. Sex þúsund manna á dag í einni kös. Og hvað með það þótt einhverjir útlendingar séu að koma og skoða gosið þegar þeir eiga að vera í sóttkví? Ísland er ekki lögregluríki. Það er ekki hægt að eltast við smáatriði.
En reglurnar fyrir okkur eru skýrar. Fram til 15. apríl skulu ekki fleiri en 10 koma saman í einu rými. Íþróttir inni og úti eru bannaðar. Sundstaðir eru lokaðir. Sex þúsund manns á gosstöðvum eru ekki íþróttir og því ekki bönnuð samkoma. En tvö þúsund manns á Aldrei fór ég suður er kjöraðstæður fyrir veiruna. Það gengur ekki. Mannfjöldi á skíðasvæðinu á Hlíðarfjalli á Akureyri er stórhættulegt, eins hver maður sér og skilur; en sex þúsund manns í Geldingadölum er hættulaust. Það gengur ekki að safna fólki saman á Skíðavikunni á Ísafirði. Veiran getur hæglega borist milli fólks með skíðalyftunum. Það er eitthvað annað en dreifingin með kaðli. Algerlega hættulaust og engin ástæða til þess að banna það.
Reglur eru reglur. Munum það.
Við erum í þessu saman.
Almannavarnir.
-k