Vesturbyggð: aflagjald af laxi um 60% tekna hafnarinnar

Bíldudalur. Mynd: Bíldudalshöfn.

Tekjur Vesturbyggðar af aflagjaldi af eldislaxi eru um 60% af áætluðum tekjum hafnarinnar í fyrra og í ár. Á þessu ári eru tekjur hafnarinnar áætlaðar upp á 259 milljónir króna en útgjöldin 161 m.kr. Hagnaður af rekstri eru áætluð 98 m.kr. eða tæp 40% af tekjunum.

Aflagjöld 2019 um 72 m.kr.

Samkvæmt ársreikningi Vesturbyggðar 2019 voru tekjur hafnarinnar umfram útgjöld 69,5 m.kr. Í fjárhagsáætlun ársins voru tekjur áætlaðar 155 m.kr. og útgjöld 121 m.kr. Aflagjald Arnarlax það ár greitt til Vesturbyggðar voru 63 m.kr. samkvæmt opinberum fjárhagsupplýsingum fyrirtækisins. Til viðbótar greiddi Arctic Fish aflagjald af sinni framleiðslu 2019 til Vesturbyggðar og voru það tæpar 9 m.kr. Samanlagt aflagjald fyrirtækjanna tveggja af eldislaxi voru því 72 m.kr. sem er um 46% af öllum tekjum hafnarinnar.

Aflagjöldin 2020 um 130 m.kr.

Á síðasta ári var samkvæmt fjárhagsáætlun Vesturbyggðar gert ráð fyrir að tekjur hafnarsjóðs yrðu 199 m.kr. og rekstrarkostnaður 150 m.kr. Aflagjöld Arctic Fish voru það ár samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu 39 m.kr. Arnarlax hefur ekki gefið upplýsingar um greiðslur sínar 2020 en þær eru væntanlegar fljótlega. Sé miðað við gjöldin árið áður og tekið tillit til aukningar í framleiðslu þá má ætla að aflagjöld Arnarlax 2020 hafi numið a.m.k. 79 m.kr. og þá á eftir að taka tillit til þess að aflagjaldið hækkaði úr 0,6% í 0,7%. Aflagjöld hafnarinnar voru þá samanlagt um 118 m.kr. af áætluðum 199 m.kr. tekjum, sem gera 60%. Ársreikningur sveitarfélagsins fyrir 2020 liggur ekki fyrir.

Aflagjöldin 2021 gæti orðið um 150 m.kr.

Arctic Fish gerir ráð fyrir að aflagjöld yfirstandandi árs verði 69 m.kr. Ætla má að aflagjöld Arnarlax verði ríflega 80 m.kr. Samtals skilar þá aflagjaldið um 150 m.kr. í hafnarsjóð Vesturbyggðar. Áætlaðar tekjur hafnarinnar eru sem fyrr segir 259 m.kr. þannig að aflagjaldið er tæplega 60% af tekjunum.

Eldislaxi er dælt úr brunnbát beint í sláturhúsið á Bíldudal í gegnum rör. Það þarf engan krana eða vigt aðeins viðlegukant svo þetta er frekar þægileg starfsemi fyrir höfnina.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir 2021 segir um hafnarsjóð:

„Heildartekjur hafnarsjóðs hækka umtalsvert á milli ára og eru áætlaðar 258,6 millj. kr. en gjöld eru
áætluð 160,6 millj. kr. Rekstur hafnarsjóðs er því áætlaður jákvæður upp á 98 millj. kr. á árinu 2021.“

„Betri afkomu hafnarsjóðs má meðal annars rekja til aukinna umsvifa í fiskeldi, en mikil aukning hefur
verið á magni eldisfisks sem landað er á Bíldudalshöfn til slátrunar og vinnslu.“

Fréttin hefur verið uppfærð vegna nýrra upplýsinga fyrir 2019.

DEILA