Tveir hafa tilkynnt um framboð sitt í efstu sætin á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Björn Guðmundsson, Akranesi gefur kost á sér í 1. – 4. sæti. Hann segir í tilkynningu að málefni aldraðra og heilbrigðismál séu honum hugleikin. „Ég get ekki lengur setið aðgerðalaus hjá og horft upp á meðan komið er fram við aldraða og öryrkja eins og annars flokks þegna. Það verður að bæta úr þessu strax því meðferð stjórnvalda á fólki er óviðunandi.“ Fiskveiðistjórnunarkerfinu þarf að breyta strax þar sem markaðsleiðin á að vera notuð til grundvallar. Þannig fáist sanngjarnt verð fyrir aflaheimildirnar og útgerðirnar borgi eðlilegt gjald fyrir afnot sinni af auðlindinni.
Gylfi Þór Gylfason, Ísafirði gefur kost á ser í 1. – 2. sæti listans. Hann telur að sé hægt að lækka orkukostnað, sem er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk. „Vestfirðingar búa við skammarlegar aðstæður í samgöngumálum. Það á að hækka auðlindgjaldið strax á stærri útgerðir. En til frambúðar þarf að gera breytingar á kerfinu. Það er í stórum dráttum að bjóða út leigukvóta og öllum fiski skuli landað á fiskmarkað.“ Gylfi telur að efla þurfi lögregluna og hann vill ekki sjá afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu. „Ég vil að Sjálfstæðisflokknum verði gefið frí frá ríkisstjórn eftir næstu kosningar og næstu 2 -3 kjörtímabilin.“