Kaupa á varðskip – nafn þess verður Freyja

Rík­is­stjórn­in samþykkti á fundi sín­um í dag til­lögu Áslaug­ar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur dóms­málaráðherra um kaup á skipi sem mun gegna hlut­verki varðskips hjá Land­helg­is­gæsl­unni.

Þetta kom fram á blaðamanna­fundi um borð í varðskip­inu Þór í dag.

Nýlega kom í ljós alvarleg bilun í vél varðskipsins Týs. Landhelgisgæslan á ekki nauðsynlega varahluti, smíði þeirra er tímafrek og ekki yrði um varanlega viðgerð að ræða.

Varðskipið Týr er 46 ára gamalt og ástand þess orðið bágborið. Ómögulegt er að sjá fyrir næstu alvarlegu bilanir. Kostnaður við að gera skipið siglingarhæft er talinn nema meiru en sem svara verðmæti skipsins eða um 100 milljónum króna.

Land­helg­is­gæsl­an tel­ur að hægt sé að kaupa ný­leg og vel búin skip í góðu standi fyr­ir um 1-1,5 millj­arða króna, að sögn Áslaug­ar Örnu.

Áslaug Arna kveðst hafa lagt fyr­ir Georg Lárus­son, for­stjóra Land­helg­is­gæsl­unn­ar, til­lögu sína um nafn hins nýja varðskips. Legg­ur hún til að skipið beri nafnið Freyja í sam­ræmi við nafna­hefð skipa Land­helg­is­gæsl­unn­ar, en skip­in sækja nöfn sín í nor­ræna goðafræði.

DEILA