Jöfnunarsjóður styrkir úttektir á kostum sameiningar sveitarfélaga

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Jöfnunarsjóður sveitarfélag hefur veitt Reykhólahreppi og Strandabyggð allt að 3 milljóna króna styrk hvoru sveitarfélagi um sig til valkostagreiningar á sameiningarkostum. Samkvæmt upplýsingum frá Jöfnunarsjóðnum vinna sveitarfélögin ein og sér að þessu og ákveða hvaða kostir verða skoðaðir. Bæði sveitarfélögin hafa samið við RR ráðgjöf, sem mun annast valkostagreininguna.

Ingibjörg Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps segir að valkostagreiningin verði gerð á forsendum Reykhólahrepps og að í ferlinu komi í ljós hvaða valkostir verða skoðaðir. Ekki hafa fengist upplýsingar frá Strandabyggð hvaða kostir verða skoðaðir.

Áður hefur verið greint frá því að Jöfnunarsjóður hefur styrkt Vesturbyggð um sömu fjárhæð sem verður notuð til þess að gera úttekt á sameiningu við Tálknafjörð.

Dalabyggð vildi ekki skoða frekar sameiningu til Vestfjarða

Fyrr í marsmánuði voru lagðir sex valkostir um sameiningu sveitarfélaga við Dalabyggð. Af þeim voru þrír þar sem vestfirsk sveitarfélög komu við sögu. Sveitarstjórnin valdi hins vegar tvo kosti til frekari skoðunar, annars vegar sameiningu Dalabyggðar við Húnaþing vestra og hins vegar sameiningu við Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit.

Valkostirnir sem ekki hlutu náð fyrir augum sveitarstjórnar Dalabyggðar voru sameining Dalabyggðar við sveitarfélögin í Strandasýslu og Reykhólahrepp, sameining Dalabyggðar við Strandir og Reykhólahrepp og að auki Húnaþing vestra og loks sameining Dalabyggðar við Reykhólahrepp og sveitarfélög á innanverðu Snæfellsnesi.

Miðað við þessa niðurstöðu er þess ekki að vænta að sameining við Dalabyggð sé valkostur í væntanlegri valkostagreiningu Reykhólahrepps og Strandabyggðar.

DEILA