Húshitunarkostnaður: Drangsnes lægst og Hólmavík hæst

Drangsnes. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á Vestfjörðum er hæsti húshitunarkostnaður í þéttbýli á Hólmavík (og öðrum stöðum þar sem er bein rafhitun) eða 191 þ.kr. fyrir viðmiðunareignina.

Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um samanburð á orkukostnaði heimilanna sem Orkustofnun vann.


Húshitunarkostnaður á Hólmavík hefur þó lækkað um 15,8% frá 2014. Í Bolungarvík, á Ísafirði og á Patreksfirði fæst lægsti húshitunarkostnaður jafnan með kyntri hitaveitu. Þar er lægsta verð fyrir kyndingu viðmiðunareignar 184 þ.kr. og hefur lækkað um 13,7% frá 2014. Á Reykhólum er hitaveita en lægsta verð fyrir húshitun þar er 136 þ.kr. og hefur lækkað um 2,6% síðan 2014. Lægsti húshitunarkostnaður viðmiðunareignar á Vestfjörðum er á Drangsnesi, hjá Hitaveitu
Drangsness, 108 þ.kr. og hefur hækkað um 8,0% frá 2014.

Heildarkostnaður: sama niðurstaða

Á Hólmavík er lægsti heildarorkukostnaður viðmiðunareignar 284 þ.kr. en þar og í öðru þéttbýli á Vestfjörðum með rafhitun er hæsti orkukostnaður í þéttbýli á Íslandi. Hann hefur þó lækkað talsvert frá 2014 eða um 10,4%. Bolungarvík, Ísafjörður og Patreksfjörður, sem hafa kynta hitaveitu koma þar næst með 277 þ.kr. heildarorkukostnað sem hefur lækkað um 8,7%. Á Reykhólum er heildarorkukostnaður 257 þ.kr. og hefur hækkað um 2,1% síðan 2014. Lægsti
heildarorkukostnaður á Vestfjörðum er á Drangsnesi 229 þ.kr., þrátt fyrir að þorpið sé skilgreint sem dreifbýli hvað varðar raforku, en þar hefur kostnaður hækkað um 8% frá 2014.

DEILA