Bókabúðin á Flateyri: Sú elsta opnar þá nýjustu!

Eftir 107 ár í rekstri hefur Gamla Bókabúðin á Flateyri opnað vefverslun (www.GamlaBokabudin.is), þar sem má nálgast allar helstu vörur verslunarinnar, hvar sem fólk er statt í veröldinni. Gamla Bókabúðin selur nefnilega ekki bara gamlar og rykfallnar bækur, heldur er verslunin með mikið úrval af vönduðum og fallegum vörum í anda gamalla tíma, þegar gæði og ending var lykilatriðið.

Gamla Bókabúðin selur meðal annars hágæða gamladags skrifstofuvörur frá Monograph og emaleraðar búsáhaldavörur frá Falcon, sem er rótgróinn breskur framleiðandi. Þá hafa umhverfisvænu Fill sápurnar verið gríðalega vinsælar og er Gamla Bókabúðin á Flateyri eina verslunin á Vestfjörðum sem selur spápur og hreinsiefni eftir vigt, líkt og verslunin gerði fyrir rúmum hundrað árum þegar það var ávallt stór grænsáputunna í versluninni.

Að sögn Eyþórs, verslunarstjóra Gömlu Bókabúðarinnar og langafasonur stofnanda hennar, hefur verið mikið að gera í versluninni í vetur, en hún hefur verið opin alla laugardaga í vetur. „Heimamenn og nærsveitungar hafa greinilega verið einstaklega þrifnir í vetur því það hefur verið mikil sala í nýju sápunni, sem er seld eftir vigt í margnota flöskur og krukkur.”

Allir laugardagar í vetur hafa verið langir laugardagar á Flateyri, þar sem öll verslun, þjónusta og veitingastaðir hafa verið opnir ásamt óvæntum uppákomum, skautum og skíðum. Þetta hefur vakið mikla lukku og skapað mikið líf á Flateyri, en Flateyringar vöktu líka mikla athygli seinasta sumar þegar þeir tóku sig saman og buðu upp á daglega viðburði yfir all sumarið.

Eyþór segist vera bjartsýnn fyrir sumarið, þrátt fyrir að covid-draugurinn hangi ennþá yfir okkur. “Ef næsta sumar verður eitthvað í líkingu við seinasta sumar hef ég engar áhyggjur. Íslendingar voru duglegir að ferðast um Vestfirði og kíkja við í Gömlu Bókabúðinni, og nú þegar vefverslunin bætist ofan á reksturinn þá er viðbúið að það verði nóg að gera í sumar og næstu ár.”

Vefverslun Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri er á vefslóðinni www.GamlaBokabudin.is

DEILA