Blásarakvintettinn Hnúkaþeyr kemur í heimsókn í Vesturbyggð dagana 14.-16. mars. Tónlistarmennirnir halda „workshop“ fyrir nemendur Tónlistarskólans, standa fyrir skólatónleikum í Vesturbyggð og halda að lokum tónleika fyrir almenning. Miðasalan rennur í ferðasjóð 10. bekkjar Patreksskóla.
Tónleikarnir fara fram í Félagsheimili Patreksfjarðar mánudagskvöldið 15. mars kl. 20:00. Þema tónleikanna er þjóðlög og verður þar leikin létt og litrík, og í bland ákaflega fjörug tónlist fyrir blásarakvintett sem skipaður er fimm hljóðfæraleikurum á flautu, óbó, klarinett, horn og fagott. Tónlistin er eftir Malcolm Arnold, Ferenc Farkas og Pál P. Pálsson og byggir á írskum, ungverskum og íslenskum þjóðlögum.
Nokkrir nemendur Tónlistarskóla Vesturbyggðar troða upp með gestunum frá Reykjavík og leika þau saman íslensk lög af ýmsu tagi m.a. verður frumflutt útsetning Báru Grímsdóttur á íslensku þjóðlagi úr Ólafsfirði. Fyrir skemmtilega tilviljun fellur efnisskráin vel að hátíð heilags Patreks sem haldin er 17. mars á Patreksfirði.
Miðaverð fyrir 18 ára og eldri er 2000 kr og ókeypis fyrir börn. Innifalið í verðinu eru kaffiveitingar. Athygli er vakin á því að vegna samkomutakmarkana er grímuskylda á tónleikana, sæti verða númeruð og eins metra regla viðhöfð.
Blásarakvintettinn Hnúkaþeyr er skipaður Berglindi Stefánsdóttur á þverflautu, Eydísi Franzdóttur á óbó, Ármanni Helgasyni á klarinett, Önnu Sigurbjörnsdóttur á horn og Kristínu Mjöll Jakobsdóttur á fagott en hún tók við sem skólastjóri Tónlistarskóla Vesturbyggðar haustið 2020. Meðlimir kvintettsins hafa margir hverjir leikið saman í 35 ár, eða síðan þau stunduðu nám saman í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Árið 2003, þá öll komin heim úr tónlistarnámi erlendis, stofnuðu þau blásaraoktett sem hlaut nafnið Hnúkaþeyr og dregur kvintettinn nafn sitt af honum. Hnúkaþeyr sem upphaflega er skipaður tveimur óbóleikurum, tveimur klarinettleikurum, tveimur hornleikurum og tveimur fagottleikurum, hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi síðastliðin 18 ár, en Berglind Stefánsdóttir flautuleikari hefur af og til leikið með hópnum.
Viðburðurinn er haldinn með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Tónlistarsjóði – Átaksverkefni 2020 vegna Covid-19 – og Menningarsjóði FÍH.