Aflaverðmæti jókst í fyrra en afli var minni

Heildaraflaverðmæti fyrstu sölu landaðs afla var rúmlega 148,3 milljarðar króna árið 2020 sem er 2% aukning frá fyrra ári.

Heildaraflamagn íslenskra skipa var 1.021 þúsund tonn sem er 3% minni afli en árið 2019.

Afli botnfisktegunda var um 488 þúsund tonn á síðasta ári sem er 4% minna en árið 2019. Aflaverðmæti botnfisks jókst örlítið frá fyrra ári og var rúmir 113 milljarðar króna.

Magn uppsjávarafla var tæp 530 þúsund tonn en var 534 þúsund tonn árið 2019 eða 1% meira. Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar um 10%, úr tæpum 21,6 milljörðum króna árið 2019 í 23,8 milljarða árið 2020. Flatfiskafli var tæplega 23 þúsund tonn sem er 4% meira en árið 2019 og verðmæti flatfisks jókst úr 9,3 milljörðum króna í 9,8 milljarða. Skelfiskafli dróst saman um 61% og aflaverðmætið varð rúmir 1,2 milljarðar króna.

Rúm 600 þúsund tonn af sjávarafurðum voru flutt út árið 2020 samkvæmt bráðabirgðatölum sem er 2,5% minna en árið áður. Verðmæti þess útflutnings var um 270 milljarðar króna sem er 3,7% aukning frá árinu 2019. Þar af var útflutningsverðmæti þorskafurða tæpir 132 milljarðar króna sem er 12,2% aukning frá árinu áður.

Af útfluttum þorski voru tæp 52 þúsund tonn fryst, 47 þúsund tonn ísuð og rúm 25 þúsund tonn söltuð. Útflutningsverðmæti var hæst vegna ísaðs þorsks eða tæpir 55 milljarðar króna sem er 13,7% aukning frá árinu 2019.

Af öðrum útfluttum afurðum voru flutt út rúm 86 þúsund tonn af makríl að útflutningsverðmæti 18 milljarðar króna. Útflutt ýsa nam tæpum 24 þúsund tonnum að andvirði 19,7 milljarðar. Útflutningsverðmæti karfa var tæplega 13 milljarðar króna og ufsa rúmir 11 milljarðar.

DEILA