Spennandi nám við Lýðskólann á Flateyri

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir skólaárið 2021-2022 við Lýðskólann á Flateyri

Skólaárið hefst um miðjan september 2021 og lýkur um miðjan maí 2022. Við höfum pláss fyrir rúmlega 30 nemendur við skólann og á heimavist skólans. Allir þeir sem náð hafa 18 ára aldri við upphaf skólaársins geta sótt um hér; https://lydflat.is/umsokn/, umsóknarfrestur er til 16. júní 2021.

Fyrir hvern er Lýðskólinn á Flateyri?

Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri segir skólann vera fyrir “ungt fólk í leit að upplifun, öðruvísi tækifærum og ævintýrum sem er tilbúið að takast á við áskoranir og að leggja af stað í þroskaleiðangur sem reynir með jákvæðum hætti bæði á þrek og þol, andlegt sem líkamlegt.”

Hvað gerir þennan skóla frábrugðinn öðrum skólum? “Samtöl og samvinna, verklegt nám og vettvangsferðir eru nokkur lykilorð í gildum og kennsluaðferðum okkar. Hér hafa nemendur frelsi til að að mennta og þroska sig með óhefðbundnum en árangursríkum leiðum”, segir Ingibjörg.

Við skólann er boðið upp á tvær námsbrautir,

Hafið, fjöllin og þú þar sem megináherslan er lögð á að nemendur öðlist færni í að ferðast um náttúruna og byggja upp traust og virðingu fyrir henni í gegnum mörg og mismunandi námskeið.

Hugmyndir, heimurinn og þú þar sem megináherslan er á að nemendur efli sköpunarhæfni sína og öðlist færni í markvissri hugmyndavinnu og sköpun í ólíkum formum.

Báðar námsbrautirnar eru í nánum tengslum við náttúruna og samfélagið á Flateyri og Önundarfjörð allan.

Lýðskólinn á Flateyri er skóli fyrir lífið sjálft / skóli lífsins 

Í Lýðskólanum á Flateyri fá nemendur frelsi til menntunar út frá sínum einstaklingsbundnu forsendum. Skólinn byggir ekki á prófum, einkunnum eða gráðum, heldur skapar hann nemendum sínum aðstæður og umgjörð til náms og menntunar. Ábyrgð á náminu er nemandans þar sem megináherslan er að uppgötva og styrkja þá einstöku hæfileika sem hver og einn býr yfir í umhverfi sem er fullt af áskorunum en um leið ríkt af stuðningi, endurgjöf og samvinnu.

Allar upplýsingar um námið, skólagjöld og nemendagarða er að finna á vefsíðu skólans; www.lydflat.is

Einnig má senda póst með fyrirspurnum á netfangið skolastjori@lydflat.is eða í síma 787 6022.

DEILA