Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í morgun aðgerðaáætlun til eflingar íslenskum landbúnaði. Kynntar voru alls tólf aðgerðir sem ætlað er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað eftir Covid-19 faraldurinn og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar. Aðgerðirnar sem kynntar voru snerta m.a. aukinn stuðning við bændur, heimaframleiðslu á lambakjöti beint frá bónda, aukna hagkvæmni og hagræðingu innan íslensks landbúnaðar og endurskoðun regluverks.
Fram kom að unnið hefur verið að mótun aðgerðanna undanfarna mánuði. Þremur aðgerðum er þegar lokið og er áformað að alls tíu af tólf aðgerðum verði lokið 15. apríl nk. og 1. júní verði ellefu af tólf aðgerðum lokið. Sigurður Eyþórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hefur verið ráðinn verkefnastjóri til að vinna að framgangi og innleiðingu aðgerðanna og hefur hann hafið störf í ráðuneytinu.
Aðgerðir 12 eru sem hér segir:
- Aukinn stuðningur við bændur
- Gjaldskrá ekki hækkuð
- Breytingar á úthlutun tollkvóta
- Ný Landbúnaðarstefna fyrir Ísland
- Endurskoðun tollasamnings við ESB
- Heimaframleiðsla beint frá bónda
- Betri merkingar matvæla
- Aukin hagkvæmni og hagræðing
- Mælaborð landbúnaðarins
- Endurskoðun á reglum um búfjársjúkdóma o.fl.
- Sértæk vinna vegna sauðfjárræktarinnar
- Aðgerðir vegna skýrslu um fæðuöryggi.
Markmið aðgerðaáætlunarinnar eru að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra beinu og óbeinu áhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á greinina. Tilgangur aðgerðanna er jafnframt að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar.