Guðmundur Magnússon, þekktastur undir höfundarnafninu Jón Trausti, fæddist 12. febrúar 1873 á Rifi á Melrakkasléttu.
Foreldrar hans voru í húsmennsku þegar hann fæddist en þau voru Magnús Magnússon, f. 1837, d. 1877, frá Daðastöðum í Núpasveit, og Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 1834, d. 1913, frá Sigurðarstöðum á Sléttu. Þau fluttu vorið 1873 að heiðarbýlinu Hrauntanga í Öxarfjarðarheiði.
Þegar faðir Jóns Trausta lést var Jóni komið fyrir á bænum Skinnalóni þar sem hann dvaldist í fimm ár. Móðir hans giftist aftur og hóf búskap á jörðinni Núpskötlu við Rauðanúp. Þangað fór Jón Trausti 10 ára gamall og var þar fram yfir fermingu.
Eftir það var hann fyrst í vinnumennsku en hóf svo prentnám hjá Skafta Jósefssyni, ritstjóra blaðsins Austra á Seyðisfirði. Sumarið 1895 fór hann til Reykjavíkur og var við prentstörf í Ísafoldarprentsmiðju. Jón Trausti fór svo til Kaupmannahafnar haustið 1896 og var þar í tvö ár í prentnámi.
Árið 1899 kom út fyrsta kvæðasafn hans, Heima og erlendis, með ljóðum sem flest voru ort á Kaupmannahafnarárum hans og árið 1903 kom út önnur ljóðabók hans, Íslandsvísur, sem prýdd er myndum eftir hann sjálfan og Þórarin B. Þorláksson listmálara. Í þeirri bók eru ljóðin Íslandsvísur sem hefjast á ljóðlínunni –Ég vil elska mitt land- og -Draumalandið- (lagið Draumalandið eftir Eyrbekkinginn Sigfús Einarsson) en þau ljóð hafa orðið vinsæl sönglög.
Hann sneri sér síðan að skáldsagnagerð og eru þekktustu skáldsögur hans Heiðarbýlið, Anna frá Stóruborg og Halla, en auk þeirra skrifaði hann fjölmargar smásögur og styttri skáldsögur. Með þessu vann Jón Trausti fulla vinnu sem prentari. Sum verka hans voru þýdd á erlend tungumál.
Eiginkona Jóns Trausta var Guðrún Sigurðardóttir, 6.4. 1868, d. 9.10. 1941, húsfreyja. Þau bjuggu á Grundarstíg 15 sem þau byggðu. Þau voru barnlaus.
Jón Trausti lést úr spænsku veikinni 18. nóvember 1918.
Skráð af Menningar-Bakki.