Skipulagsstofnun birti rétt áðan álit sitt á umsókn Arnarlax um 10.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.
Í fréttatilkynningu frá stofnuninni segir að Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif eldisins felist í áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxfiskstofna vegna erfðablöndunar. Auk þess telur Skipulagsstofnun að eldið komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi í Djúpinu á þá þætti sem nefndir voru hér á undan. Komi til leyfisveitinga telur Skipulagsstofnun að setja þurfi skilyrði í starfs- og rekstrarleyfi sem eru til þess fallin að draga úr líkum á neikvæðum áhrifum á ofangreinda þætti.
Í álitinu segir í kaflanum um erfðablöndun að eldi Arnarlax
samræmist áhættumatinu fyrr Ísafjarðardjúp, þ.e. lífmassi er innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun hefur sett auk þess sem eldið verður staðsett utan við Æðey. „Með vísan í áhættumat erfðablöndunar telur
Skipulagsstofnun því að áhrif eldis Arnarlax á frjóum laxi á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg.“
En svo segir Skipulagsstofnun að áhættumatið nái ekki til áa í Ísafjarðardjúpi sem geyma litla laxastofna. „Almennt eru ár með litla stofna taldar viðkvæmari fyrir erfðablöndun“ og „þegar horft er til þess að áhrif slíkrar erfðablöndunar geta verið óafturkræf, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á erfðafræðilega fjölbreytni, telur Skipulagsstofnun að eldi Arnarlax á frjóum laxi geti haft nokkuð eða talsvert neikvæð áhrif á villta laxastofna.“
Næst Umhverfisstofnun og Matvælastofnun
Að fengnu áliti Skipulagsstofnunar gengur umsókn Arnarlax til leyfisveitenda, þ.e. Umhverfisstofnunar, sem veitir starfsleyfi og Matvælastofnunar sem gefur út rekstrarleyfið.
Tók 6 mánuði
Arnarlax lagði fram matsskýrslu sína þann 12. ágúst 2020 og lögum samkvæmt á Skipulagsstofnun að afgreiða erindið innan fjögurra vikna. Álitið er dagsett 19. febrúar 2021.