Haustið sem ég byrjaði í landsprófi kom nýr strákur í bekkinn okkar. Hann hét Torfi Steinsson. Torfi féll strax vel inn í hópinn og áður en varði vorum við nokkrir orðnir heimagangar hjá honum og fjölskyldu hans. Þar var alltaf margmenni. Systkinin voru mörg og húsið öllum opið.
Aldrei heyrðist æðruorð frá húsráðendum, þeim Önnu og Aage. Þau höfðu alltaf nógan tíma til að tala við alla og aldrei að sjá að þau hefðu neitt annað að gera. Þó voru þau með þetta stóra heimili, Anna að lesa menntaskóla utanskóla og síðan háskóla, auk þess að kenna við Iðnskólann, og Aage stjórnaði RARIK á Vestfjörðum, var skólastjóri Iðnskólans á Ísafirði
og aðalkennari og sat svo í bæjarstjórn. Hvernig allt þetta var hægt veit ég ekki, en komst þó að því mörgum árum síðar, að það að vera upptekinn er fyrst og fremst hugarástand.
Aage var einstakur kennari. Þess fengum við félagarnir oft að njóta. Mér er minnisstætt þegar við sátum niðri á skrifstofunni hjá honum í Mjallargötu 6 og hann fór með okkur yfir stærðfræðidæmi. Hann tók brosandi á móti okkur þegar við komum og tjáðum honum vandræði okkar.
Hann lagði í rólegheitum frá sér það sem hann var að gera, tók krítarmola og sýndi okkur dæmi á töflunni. Hann sagði að þetta væri nú barasta svona og allt laukst ljóslifandi upp fyrir okkur. Við félagarnir vorum ekki þeir
einu sem nutu kennslu á skrifstofunni hjá Aage. Iðulega komu þangað nemendur úr Iðnskólanum sem höfðu misst af kennslu eða þurftu að fá sérstaka aðstoð við námið.
Í Iðnskólanum lyfti Aage grettistaki og kom með margar nýjungar. Hann fann skólanum hentugt húsnæði og festi iðnnámið í sessi sem alvörunám. Kennsla í skólanum hafði áður verið síðdegis og á kvöldin, en Aage gerði
hann að dagskóla. Námsbrautum var bætt við, svo sem vélstjórn,
skipstjórn, tækniteiknun og frumgreinanámi til undirbúnings
námi við Tækniskóla Íslands. Skólinn var þar með orðinn að eins konar fjölbrautaskóla, þótt það hugtak hafi ekki orðið til fyrr en nokkru síðar. Hugmyndir Aage í mennta- og skólamálum voru því töluvert á undan sinni
samtíð.
Aage tók við sem bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins á Ísafirði af mannvininum Halldóri Ólafssyni. Í bæjarstjórn lét Aage mikið að sér kveða, þótt hann væri eini fulltrúi síns flokks. Þar sem annars staðar var hann tillögugóður og ávann sér traust samstarfsfólksins. Mér er það minnisstætt
þegar ég síðar kom að bæjarmálunum á Ísafirði, hve þau sem höfðu starfað með Aage báru honum vel söguna og mátu hann mikils.
Hið opinbera starf Aage á Ísafirði var að stjórna RARIK á Vestfjörðum. Þar komu vel í ljós stjórnunarhæfileikar hans, ásamt þekkingu á viðfangsefninu
og yfirsýn. Þessu kynntist ég bæði sem heimilisvinur og sem starfsmaður hjá RARIK.
Þegar hefðbundnum starfsferli lauk lagði Aage aldeilis ekki árar í bát heldur hóf fiskeldi, sem hann rak í mörg ár. Sýnir það vel hve lifandi og hugmyndaríkur hann var.
Með þessum fátæklegu minningarorðum vil ég votta aðstandendum Aage samúð og þakka honum og fjölskyldu hans einstaka vináttu.
Smári Haraldsson.