Verslun á Reykhólum fær styrk

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 12 milljónum króna úthlutað til verslunar í strjálbýli fyrir árið 2021. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum.

Markmið með framlögunum er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar. Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu.

Alls bárust fimm umsóknir og var sótt um samtals kr. 34.818.000 fyrir árið 2021.

Verslun á Reykhólum fékk styrk að upphæð 5.8 m.kr. til þess að standa undir stofnkostnaði vegna opnunar og reksturs verslunar.

Önnur verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni voru:

  • Hríseyjarbúðin. Verslunin hlýtur styrk að upphæð 1 m.kr.
  • Kauptún, Vopnafirði. Verslunin hlýtur styrk að upphæð 5,2 m.kr.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefndinni sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem er formaður nefndarinnar.

 

DEILA