Umhverfisstofnun vill vernda ref fyrir myndatöku

Umhverfisstofnun hefur kynnt fyrir Ísafjarðarbæ áform sín um tvær breytingar á reglum um friðlandið á Hornströndum.

Fyrri breytingartillagan er á þá leið að leyfi þurfi  fyrir kvikmyndatöku og drónaflugs innan friðlandsins  fyrir 30. mars ár hvert og auk þess verði fjöldi leyfa til myndatöku við greni í Hornvík takmarkaður við tvö leyfi á tímabilinu 1. maí -31. ágúst. Í dag þarf ekki leyfi fyrir drónaflugi og umsókn um leyfi fyrir myndatöku þarf að berast fyrir 30. maí. Þá eru það nýmæli að takmarka leyfafjöldann  í Hornvík.

Umhverfisstofnun rökstyður breytinguna með vísan til þess að viðkoma refs
hafi ekki verið sem skyldi á undanförnum árum og vísar í álit sérfræðinga sem stundað hafa rannsóknir á lífríki svæðisins, en þeir telji  að takmarka skuli fjölda veittra leyfa á þeim tíma sem refurinn er viðkvæmastur fyrir truflun og að aðeins skuli veita tvö leyfi til myndatöku við greni í Hornvík.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur þessa breytingu íþyngjandi og óskýr. Óskar hún eftir samstarfi Umhverfisstofnunar og bæjarritara Ísafjarðarbæjar við útfærslu á reglunni.

Hin breytingartillagan varðar heimild til flugs og lendingar í friðlandinu. Í dag er heimilt að lenda á lendingarstöðum sem skilgreindir eru í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og svo má landeigandi lenda á landi sínu.

Þessum heimildum vill  Umhverfisstofnun breyta og rýmka þannig að  heimilaðar verði lendingar  aðila á vegum landeigenda sem sinna eftirliti og viðhaldi eigna eða flutningi á vistum og birgðum vegna nýtingar og viðhalds eigna.

Skipulags- og mannvirkjanefndin gerir ekki athugasemdir við þá tillögu.

DEILA