Í samþykktri fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps fyrir 2021, sem afgreidd var skömmu fyrir jól, er gert ráð fyrir verulegum fjárfestingum þrátt fyrir þrönga stöðu segir í bókun sveitarstjórnar.
Unnið verður að endurnýjun vatnslagna og gólfefna í íþróttamiðstöðinni og ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við Strandgötuna samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir fjárframlagi til byggingar þjónustuíbúða og þar með komið til móts við þá eftirspurn sem er eftir íbúðahúsnæði í sveitarfélaginu.
Þá er gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við Tálknafjarðarhöfn sem verða nánar skilgreindar með hafnasviði Vegagerðarinnar á fyrri hluta árs 2021 og þar með tryggt að fjármagn á samgönguáætlun nýtist.
Samtals er áætlað að fjárfesting sveitarfélagsins í ofangreindum verkefnum nemi 80 mkr. og er gert ráð fyrir lántöku upp á kr. 77 mkr. til að mæta fjárþörfinni.
Gert er ráð fyrir að skuldaviðmiðið 2021 verði í árslok 96,3% sem er undir því 150% hámarki sem er skilgreint í sveitarstjórnarlögum. Áætlað er að handbært fé í árslok 2021 verði neikvætt um 1,7 mkr. en því verði svo snúið við á árinu 2022.