Íbúum í Vesturbyggð fjölgaði um 44 á síðasta ár og voru þeir 1.064 þann 1. janúar 2021. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá Íslands. Einnig varð fjölgun í Tálknafjarðarhreppi um 16 manns og voru íbúarnir 268 um ármótin. Samtals fjölgaði um 60 manns á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er 4,8% fjölgun á árinu og eru 1.332 búsettir á svæðinu þann 1. janúar 2021. Fjölgunin í Vestur Barðastrandarsýslu er þrefalt meiri en á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún varð 1,5% í fyrra.
Fyrir utan Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp varð aðeins íbúafjölgun í fyrra í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu. Þar fjölgaði um 1 og voru íbúarnir 110 um áramótin. Annars staðar í Strandasýslu varð fækkun um 1 í Árneshreppi og fækkun um 18 í Strandabyggð. Alls voru 588 íbúar í sýslunni.
Mest fækkun varð í Reykhólahreppi á síðasta ári. Þar fækkaði um 26 íbúa og eru þeir nú 236. Nemur fækkunin 10%.
Á norðanverðum Vestfjörðum stóð íbúafjöldinn í Bolungavík í stað og voru 959 manns búsettir í sveitarfélaginu um áramótin. Í Súðavík fækkaði um 8 íbúa og um 15 íbúa í Ísafjarðarbæ. Samtals varð fækkun um 23 íbúa á svæðinu eða um 0,5%. Alls búa 4.955 íbúar á norðanverðum Vestfjörðum.
Samtals voru 7.111 manns búsettir á Vestfjörðum þann 1. janúar 2021 og hafði þeim fækkað um 7 frá fyrri áramótum.