Síðbúinn sannleikur

Innst inni er ég einhvern veginn sannfærð um það, að enginn maður á Íslandi – né kona  – trúi því í alvöru, að maðurinn minn, Jón Baldvin Hannibalsson, sé ofstopafullur kynferðisglæpamaður, sem níðist bæði á konum og börnum. Í öllu okkar stríði á undanförnum sextíu árum í sambúð, bæði í pólitíkinni og á vinnumarkaðnum almennt, var það aldrei inni í myndinni. Við vorum að vísu stöðugt sökuð um alls konar glæpi – svo sem smygl, þjófnað og drykkjuskap – nefndu það – en aldrei um ógeðslegt ofbeldi gagnvart konum eða börnum. Hugarflugið var ekki búið að ná þeim hæðum á þessum árum.

Ég held, að þetta fár, þetta skyndilega og ímyndaða hatur, sem um þessar mundir beinist að okkur í samfélagsmiðlum, sé sprottið af því, sem heitir á þýsku “Schadenfreude” – það að gleðjast yfir óförum annarra. Þannig fær fólk útrás fyrir sína eigin gremju, sitt niðurbælda hatur á öllum og öllu. Það hefur nautn af því að rífa niður mannorð náungans og baða sig í eigin illsku. Skaðagleði heitir það á íslensku.

Maðurinn minn er ekki vondur maður – hann er góður maður. Þú þarft ekki annað en að horfa í augu hans, hlusta á hann tala og kynnast skoðunum hans, til þess að skynja, að hér fer maður, sem ber virðingu fyrir samferðafólki sínu, hvort sem um konu eða karl er að ræða. Einlægur jafnaðarmaður, sem fer ekki í manngreinarálit, þykir vænt um fólk. Nú er það orðinn glæpur.

Ævisaga Jóns Baldvins, „Tilhugalíf“, sem kom út árið 2002, er tileinkuð mér með eftirfarandi orðum: „Lífið er eilíf leit. Leit að lífsskoðun, leit að lífshamingju, leit að lífsfyllingu. Þetta er í mínum huga leit að fegurðinni í lífinu. Hana fann ég hjá þér og með þér“.

Og þannig hefur það verið: gott líf – fagurt mannlíf.

Þann 6. október s.l. voru liðin 50 ár – hálf öld – frá því að Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður. Fyrsti skólameistarinn var Jón Baldvin Hannibalsson, eiginmaður minn.

Þetta haust fyrir 50 árum höfðum við verið lengi fjarri hvort öðru – hann fyrir vestan að undirbúa skólastarfið, og ég ólétt fyrir sunnan að lesa undir BA-próf í HÍ. Ég ætlaði að tryggja, að ég gæti að minnsta kosti orðið að einhverju gagni þarna úti á hjara veraldar.

Hann sagði mér sigri hrósandi frá því eitt kvöldið í símann, að hans fyrsta verk hefði verið að kaupa skúringafötu og „handy-andy“, svo að allt yrði hreint og fínt í gamla barnaskólahúsinu, þegar fyrstu nemendur streymdu að. Þar átti að kenna fyrst um sinn. Ég held meira að segja, að hann hafi skúrað sjálfur, því að enn vantaði bæði ræstitækna og kennara.

En hann var alsæll, aftur kominn á sínar heimaslóðir, og allt hafðist þetta að lokum.

Ég sá mest eftir því að geta ekki verið viðstödd skólasetningu – en þar sem yngsta dóttir mín, hún Kolfinna, kaus að koma í heiminn í framhaldi af skólasetningu – átti ég ekki heimangengt. Ég var því víðs fjarri, og það leið heil vika, áður en ég komst vestur með börnin í farangrinum  –  og mömmu, mér til halds og trausts.

Í háskóla lífsins

Árin okkar fyrir vestan voru okkur betri en nokkur háskóli, bæði lærdómsrík og farsæl. Þau fengu samt snöggan endi haustið 1978. Við snerum heim í september að loknu sumarfríi og komum þá að lokuðum dyrum og höfðum í engin hús að venda. Að lokum  fór ég suður með börnin, en Jón Baldvin hafði ekki brjóst í sér til að skiljast við sköpunarverk sitt  svona óvænt og fékk inni í ráðskonuherbergi á heimavistinni, þar sem hann húkti þennan síðasta vetur og stjórnaði skóla.

Vorið 1979  kvaddi hann sína síðustu nemendur. Og að venju var haldin hið árlega „jubileum“– fagnaðarhátíð: kennslu lokið. Bara prófin framundan. Fögnuðurinn fólst í því að  syngja, eta og drekka, vera góður og glaður – laus úr viðjum skólans. Frelsið framundan.

Oftast var siglt með Fagranesinu inn í Djúp, þar sem við nutum gestrisni heimamanna, en að þessu sinni var stefnan tekin út Djúpið – að vísu með viðkomu í Súðavík, þar sem fyrrverandi nemandi skólans var nú orðinn sveitarstjóri – og síðan haldið áfram til Bolungarvíkur. Núverandi orkubústjóri, afkomandi Einars Guðs, var á meðal stúdentsefnanna – og enn ein veislan framundan hjá foreldrum hans, Jónatani  og Höllu.

Bolvíkingar voru alltaf höfðingjar heim að sækja.

Sundlaugin – eitt helsta djásn Bolungarvíkur –  var opnuð sérstaklega af þessu tilefni. Þar slepptu tilvonandi „dimittendi“ fram af sér beislinu um stund og höfðu sig til áður en þeir settust að veisluborðum.

Nú eru liðin 40 ár síðan þetta allt gerðist, og aldrei hefur borið skugga á veru okkar fyrir vestan öll þessi ár. Margir af fyrrverandi nemendum okkar og kennurum á Ísafirði eru okkar bestu vinir í dag og aldrei hefur orði verið hallað í okkar samskiptum – fyrr en nú.

Þann 11. janúar, 2019 – fjörutíu árum eftir þessa glaðværu kveðjustund við Djúp – varð skyndilega myrkur um miðjan dag, og á svipstundu var líf okkar hjóna komið á ruslahaug sögunnar, eins og hver annar mengandi úrgangur. Fallegar minningar fölnuðu á augabragði, og lífið missti lit.

Þögn óttans

Hvað gerðist? Daginn þann birtist í Stundinni þaulundirbúin atlaga að mannorði mannsins míns og mínu, þar sem honum er lýst sem ólæknandi kynferðisglæpamanni og mér sem meðvirkri druslu.

Þetta hélt áfram dögum og vikum saman. Einn kaflinn var um sundlaugina í Bolungarvík. Þar var ærslum stúdentsefna snúið upp í frásögn af fordrukknum skólameistara, sem  átti að hafa hundelt hinar verðandi stúdínur í laug og baðklefum með subbulegri áreitni. Gott ef hann og vitorðsmenn hans voru ekki sagðir vaðandi um kviknaktir, ölóðir og ágengir.

Þetta átti að hafa verið endapunkturinn á því, sem áður hét skapandi brautryðjendastarf við að byggja frá grunni upp nýtt menntasetur í þágu vestfirskrar æsku.

Við vissum ekki, hvaðan á okkur stóð veðrið. Jón Baldvin hringdi strax í kennara og nemendur, sem voru viðstaddir þessa eftirminnilegu „dimission“. Enginn þeirra vildi kannast við þessa frásögn. Þvert á móti höfðu sumir nemenda orð á því, að þetta hefði verið einn eftirminnilegasti dagur lífsins.

En þegar skólameistarinn spurði, hvort þeir væru reiðubúnir  til að andmæla skrumskælingunni og segja söguna eins og hún var, komu vöflur á mannskapinn. Hópur nemenda bar saman bækur sínar. Og niðurstaðan varð sú, að enginn þorði að andmæla. Hvers vegna ekki? Af ótta við að verða sjálfir fyrir barðinu á ofsóknum öfgafeminista? Einn læknir í hópnum sagði, að biðstofan mundi tæmast, ef hann yrði opinberlega sakaður um  að skjóta hlífisskildi yfir grunaðan kynferðisbrotamann.

Skrumskælingin var með öðrum orðum samþykkt með þögn heigulsháttarins.

Það var ekki fyrr en núna, tæpum tveimur löngum árum eftir þessa atlögu að mannorði okkar, að mér barst bréf frá ónefndum nemanda, sem hafði tekið þátt í þessari umræddu kveðjuathöfn.

Hans eigin orð voru, að hann þyrði ekki að tjá sig undir nafni af ótta við dóttur okkar  – og hennar samverkakonur.

Hér fylgir frásögn nemandans orðrétt:

“Ég man vel eftir dimmisjóninni 1979. Hún hófst með siglingu yfir í Súðavík þar sem Hálfdán sveitarstjóri (fyrrverandi skólabróðir í MÍ) tók á móti okkur á bryggjunni og bauð okkur til kaffisamsætis í mötuneyti frystihússins. Síðan var siglt yfir til Bolungarvíkur þar sem hópurinn fór í sund áður en haldið var til veislu heima hjá foreldrum Elíasar Jónatanssonar. Í sundlauginni var fólk farið að finna á sér og hlaupin ærsl í mannskapinn, bæði kennara og nemendur.

Kennararnir voru margir ungir að árum, sumir hverjir nánast jafnaldrar útskriftarnemanna. Þarna var til dæmis ungur kennari sem ærslaðist í stelpunum, kafaði undir þær í lauginni og kitlaði þær. Einhver hélt því fram að hann hefði gripið í bikiníbuxur á einni þeirra – ég veit ekki hvað satt er í því.

Hins vegar fannst mér vont að sjá, áratugum seinna, þegar þessir atburðir voru rifjaðir upp í blöðum – og þá í tengslum við ásakanir Aldísar í garð föður síns – að hegðun þessa unga manns skyldi vera yfirfærð á Jón Baldvin.

Það var alls ekki Jón Baldvin sem hamaðist í stelpunum í lauginni – heldur var það þessi umræddi og þáverandi kennari sem nú er ráðsettur maður – og engum dettur í hug, held ég, að orða hann við áreitni eða óviðeigandi hegðun gagnvart konum, svo ég viti. Þarna var vissulega vín á fólki og eitt og annað sem úrskeiðis fór. Þessi ungi kennari og annar til voru full uppteknir af námsmeyjunum.

Ég man þó ekkert eftir Jóni Baldvini í því samhengi, og ekki heldur eldri kennurunum, sem voru með í för, að þeir hafi neitt skipt sér af kvenfólkinu í sundlauginni.

Ég get ekki útilokað að einhver skólasystkini mín hafi upplifað eitthvað annað en ég eða séð þessi atvik í öðru ljósi.

Ég get bara vottað það sem ég upplifði og man.

Svona man ég þetta”.

—————————————-

Bara ef ég hefði fengið þessa sögu fyrr upp í hendurnar. Það hefði eflaust vakið mig til lífsins á ný. Ég hefði getað leyft mér þann munað að hugsa til áranna fyrir vestan með ánægju – jafnvel stolti.

Loksins þegar einhver þorði.

 

Bryndís Schram

 

 

 

 

DEILA