Opna verslun á Reykhólum

Eins og kunnugt er var versluninni á Reykhólum lokað og rekstri Hólabúðar og 380 Restaurant hætt í byrjun október á síðasta ári.

Í framhaldi af því var húsnæði verslunarinnar, sem er í eigu sveitarfélagsins auglýst til leigu.
Ein umsókn barst, frá Helgu Guðmundsdóttur og Arnþóri Sigurðssyni og var gengið til samninga við þau.

Það er Helga sem mun stjórna versluninni, sem enn hefur ekki fengið nafn.
Eins og áður hefur komið fram, var veittur styrkur á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024, til opnunar og reksturs verslunar á Reykhólum. Það mun létta róðurinn við undirbúninginn.

Þau stefna að formlegri opnun 1. apríl, en jafnvel fyrr ef vel gengur að koma hlutunum af stað.

Aðspurð segjast þau leggja áherslu á verslunina til að byrja með, því mikilvægast er að koma henni í gang.
Þau segjast hlakka mikið til að koma vestur og takast á við þetta verkefni.

Eitt mál er þó óleyst, en það er íbúðarhúsnæði fyrir þau sjálf.
Þau eru að leita að leiguhúsnæði á Reykhólum eða næsta nágrenni.

DEILA