Finnbogi Rútur Þorvaldsson fæddist 22. janúar 1891 í Haga á Barðaströnd.
Foreldrar hans voru hjónin Þorvaldur Jakobsson, f. 1860, d. 1954, prestur í Sauðlauksdal, síðar kennari í Hafnarfirði, og Magdalena Jónasdóttir, f. 1859, d. 1942, húsfreyja.
Finnbogi varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1912. og lauk prófi í byggingaverkfræði árið 1923 frá Den polytekniske Læreanstalt í Kaupmannahöfn.
Eftir heimkomuna varð Finnbogi aðstoðarverkfræðingur á teiknistofu Jóns Þorlákssonar en var síðan verkfræðingur hjá Vita- og hafnamálaskrifstofunni 1925-42. Þar gerði hann áætlanir, uppdrætti og hafði umsjón með hafnargerð á Akranesi, Borgarnesi, Siglufirði, Akureyri og víðar. Hann var enn fremur kennari við Iðnskólann í Reykjavík 1924-49. Síðan var Finnbogi Rútur forstöðumaður undirbúningskennslu í verkfræði við Háskóla Íslands 1940-44 og prófessor við verkfræðideild Háskólans 1945-61.
Finnbogi var mörg ár forseti verkfræðideildar og átti sæti í háskólaráði og var um tíma varaforseti þess. Hann lét félagsmál mikið til sín taka og átti sæti í fjölmörgum nefndum. Hann var m.a. formaður Verkfræðingafélags Íslands, sat í nefnd til undirbúnings tækniskóla og var formaður Íslandsdeildar alþjóðastúdentaskipta. Hann var formaður í stjórn sameigna Hvals hf. og Olíustöðvarinnar hf. Finnbogi Rútur var sæmdur Fálkaorðunni og gullmerki Verkfræðingafélags íslands.
Eiginkona Finnboga Rúts var Sigríður Eiríksdóttir, f. 16.6. 1894, d. 23.3. 1986, hjúkrunarfræðingur og formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna í 36 ár.
Börn þeirra:
Vigdís Finnbogadóttir, f. 1930, forseti Íslands 1980-96, og Þorvaldur Finnbogason, f. 1931, d. 1952, verkfræðistúdent.
Finnbogi Rútur lést 6. janúar 1973.
Skráð af Menningar-Bakki.