Við gerð fjárlaga fyrir árið 2020 var vitað að við værum að ganga inn í kólnandi hagkerfi eftir uppsveiflu undanfarinna ára. Í upphafi árs var staða ríkissjóðs og gjaldeyrissjóðs sterk og á þeim grunni gátu stjórnvöld byggt þegar Covid-19 skall á með öllum sínum óvæntu vandamálum. Það má ekki gleyma að vegna þessarar góðu stöðu var hægt að bregðast við þessari óvæntu krísu með öflugum hætti.
Fjárlög fyrir árið 2021 eru svo enn að bregðast við þeim vanda sem við lentum í á síðastliðnu ári. Heildarútgjöld ríkissjóðs fyrir árið 2021 eru áætluð um 1.129 milljarðar kr. og hafa aukist um 124,5 milljarða kr. milli ára. Strax í upphafi faraldursins hófu stjórnvöld aðgerðir sem miðuðu að því að styðja við atvinnulífið með hlutabótaleið og tekjufallsstyrkjum. Það var gert með það að leiðarljósi að styrkja afkomu heimilanna. Fjárfestingar ríkisins voru auknar til muna. Aðgerðir sem þessar auka óhjákvæmilega skuldasöfnun ríkisins en það á eftir að skila okkur hraðar yfir boðaföllin.
Nú þegar langþráðar bólusetningar eru hafnar getum við loksins farið að horfa fram á veginn. Áfram verður unnið að áherslumálum ríkisstjórnarinnar. Rammasett útgjöld hafa aukist um hátt í fjórðung á þessu tímabili. Enn þá er unnið að eflingu menntakerfisins, bæði á framhalds- og háskólastigi og þá eru auknar áherslur á nýsköpun og rannsóknir. Aukin eru framlög til byggðamála og stórátak er í samgönguframkvæmdum og orkuskiptum. Stefnt verður áfram að byggingu nýrra hjúkrunarrýma og styrkingu heilbrigðisþjónustunnar með það að markmiði að bæta þjónustu óháð efnahag og búsetu, þá eru jafnframt aukin áhersla á geðheilbrigðismál.
Snúum vörn í sókn
Útgjaldaskuldbindingar eru umfangsmiklar í fjárlögum þessa árs, hluti af þeim eru aukin framlög vegna atvinnuleysis og útgjöld vegna átaka sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara til viðspyrnu vegna áhrifa Covid-19. Þar má finna útgjöld vegna nýsköpunar og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar. Mikilvægar aðgerðir í þágu barna og fjölskyldna sem og heilsuefling í heimabyggð. Fjárfestingar og uppbyggingarátak fyrir árin 2021-23 vegna Covid-19 nema tæpum 30 milljörðum. Uppbygging nýrra hjúkrunarrýma heldur áfram og tryggja þarf rekstur þeirra sem og þeirra sem fyrir eru.
Enn betri samgöngur og fjarskipti
Heildarútgjöld sem snúa að samgöngum og fjarskiptum fyrir árið 2021 eru áætluð 58.764,6 milljarðar kr. og aukast 22% milli ára. Ákveðið var að fara í stórátak í vegaframkvæmdum í samræmi við fjárfestingarátak. Framkvæmdir verða á stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu; á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi. Einnig má nefna framkvæmdir á Þverárfjallsvegi og Skagastrandarvegi, Borgarfjarðarvegi, Snæfellsnesvegi um Skógarströnd. Framkvæmdir sem þessar skila ekki bara betri samgöngum heldur einnig atvinnu. Allt helst í hendur.
Stærstu vegaframkvæmdir utan fjárfestingarátaks er vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Loksins, loksins erum við að sjá samfellu í uppbyggingu vega í fjórðungnum. Hér er verið að tala um framkvæmdir bæði í Gufudalssveit og Dynjandisheiði. Þessu ber að fagna! Þegar þessar framkvæmdir verða að veruleika er stórum áfanga náð. Nútíma samgöngur til og frá svæðinu og öflug vetrarþjónusta innan vinnusóknarsvæða er stór þáttur í að við getum byggt upp öflugt nútíma og samkeppnishæft samfélag á Vestfjörðum.
Annar lykilþáttur fyrir hinar dreifðu byggðir eru fjarskipti og netöryggi. Ráðist verður í fjárfestingarátak til að bæta varaafl á lykilfjarskiptastöðum til að koma í veg fyrir að samband rofni í rafmagnsleysi. Nýlega lagði Sigurður Ingi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra fram fjármagn til að tryggja áframhaldandi farsímasamband á stórum hluta vega í Árneshreppi, hér er um að ræða mikið öryggisatriði fyrir vegfarendur.
Síðasta ár var okkur lærdómur á marga vegu. Það skiptir máli að hafa fjarskipti í lagi þegar að kemur að öryggi á öllum vegum, þá er það gríðarlegt öryggismál að hafa varaafl fyrir heilbrigðisstofnanir sem og heimili landsmanna.
Langþráð jöfnun dreifikostnaðar raforku
Nú rétt fyrir jólin var samþykkt frumvarp um hækkun á jöfnunargjaldi vegna dreifingar raforku um 13%. Gjaldið hefur verið óbreytt frá því að það var sett með lögum árið 2015. Því til viðbótar er boðuð enn frekari hækkun í fjárlögum 2021, nemur sú hækkun um 730 milljarða og dugar það til að jafna um 85% af heildarþörfinni. Hér er um mikið réttlætismál að ræða, ekki bara á köldum svæðum heldur í dreifbýli um land allt þegar að jöfnu verðu náð.
Hvað varðar orkumál almennt þá á að fara í átak í jarðstrengjavæðingu og þrífösun á dreifikerfi raforku á landsbyggðinni til að auka orkuöryggi. Stefnt er að því að fækka truflunum í dreifikerfi um 85%. Eftir hamfarirnar sem urðu í óveðrinu sem skók landið á aðventunni 2019 var farið í aukið átak með auknu eftirliti og bættri yfirsýn með tiltæku varaafli raforku í landinu.
Styrkari staða barna í íslensku samfélagi.
Stjórnvöld undir forystu félags- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars hafa unnið að innleiðingu barnvænna sveitarfélaga ásamt verklags og ferla sem tryggja eiga jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar. Þrjú frumvörp liggja nú fyrir velferðarnefnd sem miða að því að auka þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu. Áhersla var jafnframt lögð á að hagsmunir barna væru ávallt í fyrirrúmi með því að barn fái tengilið og málsstjóra sem gæti hagsmuna þess. Þetta tryggir samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þá er ótalin aukning vegna lengingu fæðingarorlofsins, hækkun barnabóta og aukin stofnframlög til byggingar á leiguhúsnæði fyrir þá tekjulægri.
Þegar neyðin er stærst
Við sjáum fram á bjartari tíma, bóluefni þokast inn á markaðinn á undraverðum tíma. Vísindin lögðu allt undir og með þeirri vissu sem það gefur getum við treyst því að samvinna og kraftur stjórnvalda munu færa okkur fram á veginn. Ekki til baka heldur inn í nýja framtíð sem skráir nýja sögu, ný markmið og ný tækifæri.
Halla Signý Kristjánsdóttir
þingmaður Framsóknarflokksins.