Guðríður Hlín ráðin forstöðu­maður Muggs­stofu á Bíldudal

Guðríður Hlín Helgu­dóttir hefur verið ráðin forstöðu­maður Muggs­stofu á Bíldudal og menn­inga- og ferða­mála­full­trúi Vest­ur­byggðar.

Guðríður var metin hæfust til starfsins úr hópi umsækj­enda um starfið, sem auglýst var í desember sl.

Guðríður er ferðamálafræðingur að mennt og stundar nám í Forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun við Háskólann á Bifröst.
Guðríður starfaði áður sem rekstrarstjóri Hlemmur Square og verkefnastjóri við Selasetur Íslands.
Einnig stofnaði hún ferðaskrifstofuna Seal Travel.
Guðríður hefur einnig komið að ýmsum verkefnum s.s. samstarfsverkefnum upplýsingamiðstöðva á Norðurlandi Vestra, útgáfu smáforritsins „Visit Húnaþing“ og útgáfu barnakorts Norðurlands Vestra. Þá hefur Guðríður sinnt mörgum félags- og trúnaðarstöfum.

Muggsstofa er samfélags- og nýsköpunarmiðstöð á Bíldudal og er miðstöðin samstarfsverkefni Vesturbyggðar og áhugamannafélags um Skrímslasetur á Bíldudal.
Í Muggsstofu verður veitt fjölbreytt þjónusta og aðstaða til sköpunar og frumkvöðlastarfs. Þar verður opinber þjónusta aðgengileg og stuðlað verður að eflingu menningar- og félagsstarfs sem og auka þekkingu og styrkja ímynd Bíldudals.

Í miðstöðinni fer fram starfsemi bókasafnsins og félagsstarf aldraðra, en lögð er rík áhersla á að efla félagstarf aldraðra, með fjölgun viðburða, námskeiða og fl.

DEILA