Ísfisktogarinn Akurey AK er nú á Vestfjarðamiðum eftir að hafa fengið 140-145 tonna afla í fyrstu veiðiferð ársins. Aflanum var landað í Reykjavík í gær. Eiríkur Jónsson skipstjóri segir að nýtt ár byrji vel og aldrei þessu vant hafi verið ágætt veður allan túrinn.
,,Við vorum mest að veiðum í kantinum vestur af Vestfjörðum. Fórum einnig á Halann og í Djúpálinn og enduðum svo í Víkurálnum. Uppistaða aflans var mjög góður þorskur og ég gæti skotið á að hann hafi verið fjögur kíló að jafnaði,” segir Eiríkur en hann upplýsir að auk þorsksins hafi ýsa og ufsi verið hluti aflans.
,,Hafís var að gera okkur lífið leitt og þá sérstaklega síðustu tvo sólarhringana. Það var kominn hafís inn fyrir kantinn og ég gæti skotið á að hann hafi verið um 30 mílur frá landi. Meira að segja var hafís kominn í Víkurálinn þar sem við enduðum,” sagði Eiríkur en að hans sögn urðu skipverjar víða varir við loðnu.
,,Það var nokkuð um að við fengjun loðnu ánetjaða í trollinu. Þetta var mest smáloðna sem við urðum varir við,” sagði Eiríkur Jónsson.