Útflutningsverðmæti eldisafurða nam tæplega 2,3 milljörðum króna í nóvember samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti um vöruskipti í morgun. Það er nokkuð umfram væntingar.
Framleiðslan aldrei verið meiri
Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í rúma 25,3 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2020. Það er um 11% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil árið 2019. Gengi krónunnar var að jafnaði 10% veikara á fyrstu 11 mánuðum ársins í fyrra en á sama tímabili árið 2019 og stendur útflutningsverðmæti eldisafurða þar með nánast í stað á milli ára á föstu gengi.
Þetta kemur fram í fréttabréfi SFS.
Útflutningur eldislax eykst um 5%
Útflutningsverðmæti hefðbundinnar framleiðslu á eldislaxi nam 17,3 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðum ársins í fyrra, sem er um 5% aukning frá sama tímabili árið 2019. Útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, nam rúmlega 5,2 milljörðum króna og jókst um rúm 4% á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam 1,0 milljarði króna og dróst saman um 22% á milli ára.
Útflutningsverðmæti eldislax fyrstu 11 mánuði hvers árs hefur liðlega sexfaldast frá 2014 til 2020 og er 21 milljarði króna meiri 2020 en var 2019.