Í sunnanverðum Önundarfirði liggur Valþjófsdalsvegur (625) um Ófæruhlíð á milli Hjarðardals og Valþjófsdals.
Er hún kennd við Dalsófæru, klettastalla sem ganga í sjó fram og voru áður illur farartálmi.
Haustið 1892 var svolítil hilla sprengd inn í bergið en yfir Ófæruna var þó aldrei fært með klifjaða baggahesta fyrr en akvegur var lagður árið 1949.
Gangandi menn komust hins vegar fyrir Ófærunefið þegar lægst var í sjó en sú leið var ekki fær með hesta nema á stórstraumsfjöru.
Heimildir um þennan veg eru í árbókum Ferðafélagsins, 1951 bls. 82 og 1999 bls. 324