Skilaréttur við vörukaup

Í lögum um neytendakaup nr. 48/2003 er meginregla sú að skilaréttur er ekki fyrir hendi við kaup á ógallaðri vöru.

Þrátt fyrir að í lögum um neytendakaup sé ekki að finna ákvæði um skilarétt á ógallaðri vöru veita margar verslanir neytendum rétt til að skila vörum. Á árinu 2000 gaf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (áður viðskiptaráðuneytið) út verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur. Reglurnar eru leiðbeinandi og þeir seljendur sem fylgja þeim og auka þannig þjónustu sína við neytendur gera það að eigin frumkvæði og án lagaboðs.

Meginatriði verklagsreglnanna eru:

– réttur til að skila ógallaðri vöru sé a.m.k. 14 dagar frá afhendingu
– vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil
– inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru
– gjafabréf og inneignarnótur gilda í allt að fjögur ár frá útgáfudegi
– skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði frumkvæði að gerð merkis um skilarétt og þær verslanir sem fylgja verklagsreglunum er frjálst að nota það, sjá greinagerð nefndar um skilarétt.

Skilaréttarmerkið gefur til kynna að verslunin fari eftir verklagsreglum um skilarétt.

Meiri réttur við kaup við fjarsölu og utan fastrar starfsstöðvar

Sé hlutur keyptur við fjarsölu eða utan fastrar starfsstöðvar þá eiga neytendur meiri rétt til að skila vöru sem er ógölluð. Samkvæmt lögum um neytendasamninga nr. 16/2016 hefur neytandi 14 daga frá því að samningur var gerður milli hans og seljanda eða frá því að neytandi fær vöru afhenta, ef sá dagur er síðar, til að hætta við kaupin án nokkurra skýringa og fá endurgreiðslu. Neytandanum ber að sjálfsögðu að skila vörunni óskemmdri til seljandans. Ákvæðið um að falla frá samningi gildir t.d. ekki í tilvikum þar sem vara eða þjónusta hefur verið sérsniðin að kröfum neytandans, ef neytandinn hefur veitt ótvírætt samþykki fyrir því að þjónusta sé innt af hendi innan þessa frests eða ef innsigli hafa verið rofin.

Neytandi sem vill nýta sér rétt til að falla frá samningi skal tilkynna seljanda það með sannanlegum hætti og getur notað til þess staðlað eyðublað. Hafi neytandi notað þennan rétt sinn og fallið frá samningi þá er seljanda skylt að endurgreiða honum án nokkurs kostnaðar þær greiðslur sem hann hefur þegar innt af hendi. Slík endurgreiðsla skal fara fram eins fljótt og kostur er og eigi síðar en eftir 14 daga.

DEILA