Í erindi samgönguráðherra á nýafstöðnu Hafnasambandsþingi sagði ráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson að Fjármagn til hafna og mikilvægra sjóvarna hefur verið stóraukið á kjörtímabilinu og síðast í tengslum við fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar í vor. Í ár verður 1,6 milljarði króna varið til hafnaframkvæmda og 1,2 milljarðar eru settir í hafnir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Alls sé áætlað að verja tæpum sjö milljörðum króna á sex ára tímabili frá 2020-2025.
Sigurður Ingi sagði að með fjölbreyttari atvinnuháttum hafi hlutverk og vægi hafna verið að breytast síðustu ár. Hafnirnar væru „undirstaða atvinnulífs, lífæð samfélagsins sem þurfa að aðlagast að breyttum þörfum og breyttu neyslumynstri neytanda.“
Nokkur stór verkefni á Vestfjörðum eru á áætluninni. Á Bíldudal eru framkvæmdir við lengingu á hafnakanti og verður rekið niður vel á annað hundrað metra langt stálþil. Kostnaður er um hálfur milljarður króna.
Á Ísafirði verður framkvæmt fyrir um 600 milljónir króna við lengingu Sundabakka og dýpkun. Þá verður endurbyggður innri hafnargarður í Þingeyrarhöfn. Kostnaður verður nærri 300 milljónir króna.
Loks má nefna um 300 milljóna króna framkvæmdir í Bolungavíkurhöfn, einkum við endurbyggingu Lækjarbryggju.